SAGA UMBREYTINGA

Í gömlu Vélsmiðjunni á Seyðisfirði er sýning Tækniminjasafnsins, Búðareyri – saga umbreytinga.

Sýningin fjallar um sögu Búðareyrar frá 1880 til dagsins í dag og þær umbreytingar í búsetu, atvinnulífi, samfélagi og náttúru sem þar hafa átt sér stað. Breytingar sem segja ekki eingöngu staðbundna sögu heldur endurspegla jafnframt hluta af mun stærri sögu tækniframfara og mannlífsbreytinga síðustu 150 árin á Íslandi og víðar.

Þessi síða veitir innsýn inn í þá ríku sögu sem fjallað er um á sýningunni..

HVAÐ ER BÚÐAREYRI?

Búðareyri er rúmlega sjö hektara landræma í sunnanverðum Seyðisfirði, milli hins tignarlega 1.000 metra háa Strandartinds og djúps fjarðarins. Í árþúsundir var á eyrinni lítil sem engin byggð en frá árinu 1880 hafa margs konar umbreytingar átt sér stað á þessari tiltölulega litlu landræmu, óbyggt svæði breyttist í líflegt athafnasvæði á árunum fyrir aldamótin 1900.

Líf og fjör á Hafnargötunni um miðbik 20. aldar.  Hér má sjá Vélsmiðju Seyðisfjarðar, Skipasmíðastöð Austfjarða, íbúðarhúsið Garð og Símstöðina í fjarska.  ©Ljósmyndasafn Akraness / Ólafur Frímann Sigurðsson.

Síðar taka við hæðir og lægðir þar sem félagslegir, efnahagslegir og umhverfistengdir þættir hafa áhrif. Lykilhlutverk í uppbyggingu og starfsemi á Búðareyri spilaði þó hin afburðagóða hafnaraðstaða.

Árið 2020 féll á eyrina stærsta skriða sem fallið hefur í byggð á Íslandi og gjörbreytti á augabragði möguleikum til áfram haldandi búsetu og atvinnustarfsemi þar. Í dag má aðeins búa á innri hluta Búðareyrar. Tækniminjasafnið þarf að flytja annað enda ekki heimilt að varðveita menningarverðmæti á þessu svæði og fyrirhugað er að flytja menningarsögulegar byggingar sem enn standa á öruggari stað í bænum. Ýmis atvinnustarfsemi á svæðinu á undir högg að sækja og stjórnendur horfa til flutninga eða jafnvel lokunar á sinni starfsemi.

Það má velta upp þeirri spurningu hvort tími fyrir umsvif mannsins á þessari litlu landræmu sé liðinn.

FORSAGAN

Örfá hús risin á Búðareyrinni, m.a. bryggjuhúsin Angró og Þórshamar. Myndin sýnir vel þær fjölmörgu skriður sem fallið hafa á hana í tímans rás.
© Tækniminjasafn Austurlands.

Fram yfir miðja 19. öldina má segja að íslenskt samfélag hafi einkennst af vissri stöðnun og fábreytni. Ísland var hluti danska konungsveldisins og stjórnað frá Kaupmannahöfn. Meginþorri þjóðarinnar bjó í sveitum landsins, annaðhvort sem bændur sem réðu yfir landi eða vinnuhjú þeirra. Lögum samkvæmt skyldu þeir sem ekki höfðu land til umráða ráða sig í vist hjá bændum, lausamennska var bönnuð. Fámenn stétt presta og annarra embættismanna var auk þess í landinu. Aðeins mátti versla á ákveðnum stöðum með leyfi frá konungi. Kaupmenn voru flestir danskir og bjuggu fæstir á landinu, komu aðeins til sumardvalar. Í kringum 1870 fór þessi þjóðfélagsgerð að riðlast, fólk fór að flytjast til sjávarsíðunnar og þéttbýlismyndun hófst fyrir alvöru.

Byggð í Seyðisfirði má rekja aftur til landnáms en það var ekki fyrr en á seinni hluta 19. aldar að íbúum fjölgaði svo að eftir var tekið. Byggðin breyttist úr fámennu og frekar stöðnuðu bændasamfélagi í fjölþjóðlegan bæ með mörg einkenni borgaralegs samfélags. Atvinnulíf varð fjölbreyttara og tæknivæddara, húsum fjölgaði ört og ljósmyndastofur, prentsmiðjur, skóvinnustofur, vélsmiðja, verslanir og matsölur voru starfræktar. Þá höfðu embættismenn þar aðsetur og spítali var byggður árið 1900. Nýjungar í daglegu lífi og tómstundum fólks voru margar, s.s. garðrækt, kvenfélagaþátttaka, leikfélagsstarfsemi, skipulögð líkamsrækt og hjólreiðar. Það þótti vera séreinkenni Seyðisfjarðar miðað við aðra íslenska bæi hversu alþjóðlegur hann var og hversu hratt hann byggðist upp.

ATHAFNASVÆÐI VERÐUR TIL

Norðmenn, sem höfðu yfir betri siglingatækni og meira fjármagni að ráða en Íslendingar, hófu veiðar á síld við Íslandsstrendur á síðari hluta 19. aldar. Seyðisfjörður var sá staður sem þeir nýttu sér mest í fyrstu, spiluðu hin góðu hafnarskilyrði þar stærstan þátt.

Norðmaðurinn Otto Wathne fór fremstur í flokki og valdi hann starfsemi sinni staðsetningu á Búðareyrinni.

Otto Wathne hafði skip í reglulegum millilandasiglingum. Hér má sjá gufuskipið Miaca við bryggju á meðan skipið Eljan situr föst í ís. Á myndinni má sjá bræðurna Otto, Friðrik, Carl og Tönnes Wathne ásamt konum sínum þeim Guðrúnu, Elísabetu, Ásdísi og og Gundu Wathne. Einnig Rannveigu, móður Elísabetar. Myndin var tekin 13. ágúst 1887.
© Ljósmyndasafn Íslands

Friðrik og Carl tóku við fyrirtæki Otto bróður síns að honum látnum. Hér má sjá starfsfólk þeirra og fjölskyldur í kringum aldamótin 1900.
© Tækniminjasafn Austurlands.

Á síðustu áratugum 19. aldar fór Búðareyri úr því að vera nær óbyggð í líflegt athafnasvæði. Höfnin iðaði af lífi, bryggjur voru smíðaðar, skipakomur voru tíðar, veiðar og verkun afla jókst umtalsvert og verslun og viðskipti blómstruðu. Húsin spruttu upp eins og gorkúlur, bæði undir atvinnustarfsemi og til að hýsa nýja íbúa sem margir voru af erlendu bergi brotnir.

OTTO WATHNE

kom frá bænum Mandal sem er syðst í Noregi. Bærinn státar af góðri höfn og aldalangri hefð fyrir sjómennsku og siglingum. Hann fór ungur til sjós, kom fyrst til Seyðisfjarðar upp úr 1869 en settist þar að árið 1880. Hann keypti lóð á Búðareyri, lét reisa söltunar- og íbúðarhúsið Angró og gerði út á síldveiðar sem gengu vel.

Frumkvöðull og athafnamaður

Veldi hans óx hratt og umsvif jukust. Hann gerði m.a. út gufuskip til fiskveiða, setti á fót verslun og stóð fyrir reglulegum skipaferðum milli Kaupmannahafnar, Noregs, Færeyja og Íslands. Hann lét byggja fjölda húsa á Búðareyri, fiskireiti hafði hann, ískjallari var útbúinn, hann lét leggja veg um Búðareyri og inn að Fjarðará og stóð fyrir brúarsmíði yfir fyrrnefnda á. Hann hafði forgöngu um endurreisn blaðsins Austra auk ýmis konar viðskipta og umsvifa víðar á landinu. Hann byggði vitann á Dalatanga fyrir eigið fé til að greiða fyrir siglingum til Seyðisfjarðar og svo mætti lengi telja.

Persónulegir hagir 

Otto Wathne kvæntist Guðrúnu Jónsdóttur sem hann kynntist er hann dvaldi á Hótel Íslandi í Reykjavík um nokkurra vikna skeið. Guðrún var ekki af háum ættum og vann á hótelinu. Á örfáum árum tók líf hennar algerum stakkaskiptum, hún varð efnuð og margsigld húsmóðir. Þau tóku þrjú börn í fóstur en eignuðust ekki börn sjálf. Þau voru kunn fyrir hjálpsemi og góðgerðastörf. Otto lést í hafi árið 1898 og var Seyðfirðingum og öðrum mikill harmdauði. Eftir hans daga tók Friðrik bróðir hans við fyrirtækinu á Seyðisfirði, sem var nokkuð stöndugt fram á þriðja áratug 20. aldar. Kreppan mikla lagði það, eins og mörg önnur fyrirtæki, að velli.

RITSÍMINN

Ritsíminn tekinn á land. Fremst má sjá Kapalhúsið þar sem móttökutæki strengsins voru staðsett. © Ljósmyndasafn Íslands.

Þann 25. ágúst 1906 var ritsímastrengur, sem lagður var frá Skotlandi, um Færeyjar til Íslands, formlega tekinn í notkun. Hann kom á land hér á Seyðisfirði og við það gjörbreyttust möguleikar á Íslandi til samskipta, bæði í persónulegum og viðskiptalegum tilgangi.

 

Áður voru samskipti milli landa háð skipaferðum og póstflutningar innanlands fóru fram fótgangandi eða á hestbaki. Allt í einu var hægt að koma skilaboðum á milli samdægurs í stað þess að það tæki daga, vikur og jafnvel mánuði.

 

Mánuði síðar lauk lagningu landlínunnar til Reykjavíkur sem má teljast gríðarlegt verkfræðiafrek. Á einu sumri voru reistir 14 þúsund staura sem nauðsynlegir voru til að halda línunni á lofti. Útbreiðsla símans um land allt var hafin.

Hér má sjá starfsfólk símstöðvarinnar á Seyðisfirði, líklegast á árabilinu 1910 – 1920.  Á myndinni má m.a. sjá Þorstein Gíslason, síðar símstöðvarstjóra og bræðurna Snorra og Gísla Lárussyni. © Ljósmyndasafn Íslands.

 Til urðu ný störf símritara og símadama sem þóttu virðingarstöður og juku starfsmöguleika ungs fólks sem áður höfðu verið frekar takmarkaðir. Voru þetta vel launuð störf þó að konurnar hafi fengið minna greitt en karlarnir.

Símstöðin var til húsa í fyrrum íbúðarhúsi Otto Wathne og var þar fram til ársins 1973.

ATVINNULÍF

Löngum var iðandi og blómlegt atvinnulíf á Búðareyrinni, sem að mestu tengdist höfninni og sjávarútvegnum. Fjölmörg útgerðarfyrirtæki, stór sem smá og fiskvinnslur störfuðu þar til lengri eða skemmri tíma. Blómleg verslun þreifst þar einnig sem byggðist mikið upp í kringum þjónustu við útgerðina og skipakomur auk annarra fyrirtækja sem tóku mið af hinni hafnsæknu starfsemi sem allt snerist um.

HÖFNIN OG FJÖRÐURINN

Oft var þröng á þingi við seyðfirskar bryggjur eins og þessi mynd ber með sér. © Ljósmyndasafn Íslands.

Seyðisfjörður státar af einni bestu höfn Íslands frá náttúrunnar hendi. Innsti hluti fjarðarins liggur ekki fyrir opnu hafi, logn er óvíða meira auk þess sem að dýpi er mikið.

Á Búðareyri hefur höfnin spilað lykilhlutverk í atvinnuuppbyggingu og starfsemi síðustu eina og hálfa öldina. Síldveiðar Norðmanna voru aflvaki til breytinga í byrjun. Skipaumferð, vöru-og farþegaflutningar og sjávarútvegur í ýmsum myndum hafa einkennt hafnarstarfsemina í gegnum tíðina. Verslun tók auk þess mið af fjölbreyttum umsvifum hafnarinnar og ýmis konar þjónusta við hana blómstraði, s.s. vélsmiðja, skipasmíði og netagerð.

Síldarsöltun á Bæjarbryggjunni á Seyðisfirði í kringum 1960. Auðþekkt er Fjóla Sveinbjarnadóttir fyrir miðri mynd.
Ljómynd: Þorsteinn Jósepsson © Ljósmyndasafn Íslands.

Sjávarútvegur

Þéttbýlismyndun við sjávarsíðuna á Íslandi almennt byggðist á sjávarútvegi. Í lok 19. aldarinnar og á fyrstu áratugum þeirrar tuttugustu urðu tækniframfarir varðandi veiðarfæri og vélvæðingu bátaflotans til þess að hægt var að sækja fiskinn lengra en áður og víðar á landinu.

 

Sjávarútvegurinn tók miklum breytingum á tuttugustu öldinni, veiðarfæri og skip urðu betri, fiskibræðslur voru reistar, aðstæður til fiskvinnslu í landi bötnuðu til muna, síldarárin á 6. og 7. áratugnum umbreyttu bæjum í sannkallaða síldarbæi, skuttogaravæðingin gerbreytti aðstæðum sjómanna, vinnslulínur í frystihúsum bætti og breytti aflavinnslu í landi, aflaverðmæti jókst og kvótakerfið hafði einnig mikil áhrif til fiskveiðistjórnunar og rekstrarumhverfi sjávarútvegsins.

 

Á Seyðisfirði urðu til fjölmörg fyrirtæki, sum gengu vel, önnur síður og fjöldi fólks, annars staðar af landinu sem og erlendis frá kom til bæjarins til að vinna við sjávarútveginn, sem framan af var helsta grunnstoð seyðfirsks atvinnulífs.

Togarinn Gullver kemur til Seyðisfjarðar í mars 1972 við hátíðlega athöfn.
© Ljósmyndasafn Reykjavíkur / Gísli Benediktsson.

BLÓMLEG VERSLUN

Verslun á Búðareyri þjónustaði sjávarútveginn og þau fjölmörgu fyrirtæki og starfsfólk sem þar störfuðu um árabil.
© Tækniminjasafn Austurlands / Ásgeir Emilsson.

Þrátt fyrir að fátt bendi til þess nú þá var Búðareyrin um árabil nær sjálfbær þegar kemur að verslun. Fólk þurfti lítið að fara út fyrir hana eftir hinum ýmsa varningi. Þar voru á einum eða öðrum tímapunkti matvöruverslanir, byggingavöruverslanir, sjoppur, bensínstöðvar, veitingahús, hárgreiðslustofa, kaffihús, skóvinnustofur, grænmetis- og blómaverslun, bókabúðir, húsgagnabólstrun, kaupfélög, áfengisverslun, gjafavöruverslun, trésmíðaverkstæði, pósthús, verkfræðistofa, bókhaldsþjónusta og gosdrykkjaverksmiðja svo eitthvað sé nefnt.

Þessar verslanir þjónuðu jafnt íbúum bæjarhlutans sem og sjómönnum og starfsfólki hinna fjölmörgu fyrirtækja sem störfuðu á Búðareyrinni. Sumar byggingar voru sérstaklega reistar og nýttar undir slíka starfsemi á meðan hluti íbúðarhúsa var notaður í öðrum tilfellum.

Upp úr aldamótunum 2000 hafði nær öll verslun lagst af á Búðareyri.

RÍKIÐ

Helga Emilsdóttir við afgreiðslustörf í Ríkinu (ÁTVR) við Hafnargötu undir lok 20. aldar.
© Héraðsskjalasafn Austfirðinga.

Áfengisverslun var í húsi sem kallaðist Valhöll á árunum 1959 – 2004. Meirihluta þess tíma var hún eina áfengisverslunin á Austurlandi. Fólk gerði sér ferð yfir Fjarðarheiði af Héraði, sem í tali gárunga var stundum kölluð Alkóhóllinn, á meðan aðrir pöntuðu veigarnar með póstinum. Það varð til þess að mikill hluti af starfsemi pósthússins á Seyðisfirði tengdist afgreiðslu á áfengi, jafnvel svo nemur einu stöðugildi.

Árið 2004 var starfsemi hætt í húsinu og hefur það staðið autt síðan. Fyrirhugaðar eru gagngerar endurbætur, en í húsinu eru m.a. elstu og heildstæðustu verslunarinnréttingar á landinu. Þær komu úr verslun Konráðs Hjálmarssonar í Mjóafirði en voru fluttar í „Ríkið“ árið 1918.

Fyrir tíma Áfengisverslunar ríkisins var verslað með áfengar veigar á öðrum stöðum, t.d. í Wathnebúðinni.

VÉLSMIÐJA SEYÐISFJARÐAR

Vjelasmiðja Jóhanns Hanssonar, síðar Vélsmiðja Seyðisfjarðar, var stofnuð árið 1907 og lék lykilhlutverk í vélvæðingu austfirska bátaflotans. Hér má sjá upprunalega húsið sem síðar var byggt við.
© Ljósmyndasafn Íslands.

Fyrsti vélbáturinn. © Þjóðminjasafn Íslands.

Vélvæðing fiskibáta

Jóhann Hansson, vélfræðingur frá Djúpavogi, kom fyrir tilstuðlan kaupmannsins Stefáns Th. Jónssonar til Seyðisfjarðar. Hér átti hann að koma á fót vélsmiðju sem liðkað gæti fyrir vélvæðingu bátaflotans. Jóhann hafði starfað í verksmiðju í Danmörku sem framleiddi DAN-mótora sem byrjað var að setja í seyðfirska báta og því öllum hnútum kunnugur.

 

Steypiríið

Á upphafsárum Vélsmiðjunnar var nóg að gera við að þjónusta bátavélar og útgerðir, auk almennrar vélsmíði. Upphaflega vélsmiðjuhúsið var stækkað til muna svo hægt væri að koma þar fyrir járn- og málmsteypu. Þá varð mögulegt að smíða og steypa nýja vélarhluti eftir þörfum í stað þess að panta þá frá Reykjavík eða Danmörku. Auk þess var þar framleitt línuspil með einkaleyfi.

Fljótlega var dráttarbraut sett niður svo hægt væri að taka báta á land. Endurnýjun á henni, í lok fjórða áratugarins, gerði mögulegt að draga allt að 100 tonna skip á land.

 

 

 

Tækjabúnaður Vélsmiðjunnar var af ýmsu tagi.
© Tækniminjasafn Austurlands.

Togaranum Otto Wathne NS 90 hleypt af stokkunum nýsmíðuðum árið 1981. © Tækniminjasafn Austurlands.

Stálbátasmíði

Árið 1967 var farið að smíða stálskip á vegum fyrirtækisins. Stefán, sonur Jóhanns, hafði þá tekið við stjórnartaumum . Fyrst voru skipin smíðuð undir berum himni, oft við erfiðar aðstæður. Síðar var reist stór stálgrindarskemma sem breytti starfsaðstæðum til muna. Sú skemma gjöreyðilagðist í skriðunni 2020.

 

 

 

 

 

Um árabil var Vélsmiðjan einn af stærri vinnustöðum bæjarins. Oft voru um og yfir þrjátíu manns á launaskrá, sem margir störfuðu þar svo áratugum skipti. Þegar leið undir lok 20. aldar urðu miklar breytingar í íslenskum skipasmíðaiðnaði. Sífellt fleiri skip voru smíðuð erlendis sem hafði þau áhrif að starfsemi fyrirtækisins lagðist af árið 1993 sökum verkefnaskorts.

ERLEND ÁHRIF

 

Á Seyðisfirði hafa erlend áhrif alltaf verið mikil. Bærinn byggðist að miklu leyti upp í kringum síldveiðar Norðmanna, skipakomur erlendis frá voru fastur liður, færeysk, ensk og norsk fiskiskip hafa nýtt sér hafnaraðstöðuna í gegnum tíðina, millilandaskip í siglingum stoppuðu á Seyðisfirði og íbúasamsetning bæjarins oft verið fjölþjóðleg, alveg frá byrjun.

 

Þá umbreyttist bæjarbragurinn auðvitað á hernámsárunum þegar þúsundir hermanna gengu hér um götur, en þeim fylgdu jafnframt gífurleg umsvif.

Í dag býr á Seyðisfirði fólk alls staðar að, alþjóðlegt listalíf dafnar hér, Lunga listaskólinn dregur að sér stúdenta viðs vegar að úr veröldinni og mikill fjöldi ferðamanna svip sinn á bæinn stóran hluta úr ári.

HERNÁMIÐ

Þann 10. maí 1940 var hið herlausa Ísland hernumið af Bretum, sem með því vildu tryggja sínar siglingaleiðir á Norður-Atlantshafi. Herinn var með aðsetur víða um land en helstu bækistöðvar voru Reykjavík, Akureyri og Seyðisfjörður.

 

Í lok júní gengu á land um tvö þúsund hermenn á Seyðisfirði sem lögðu undir sig ýmis hús. Hinir ótvíræðu kostir Seyðisfjarðarhafnar urðu til þess að hún var nýtt sem flotahöfn til stríðsloka.

Breskir hernámsliðar á Seyðisfirði. ©Tækniminjasafn Austurlands.

Í trássi við óskir bæjaryfirvalda risu braggabyggðir vítt og breitt í bæjarlandinu, oft í miðri íbúabyggð, og var Búðareyrin engin undantekning. Þar risu braggabyggð og birgðageymslur auk þess sem herinn nýtti bryggjuhúsið Angró undir starfsemi sína.

Koma hernámsliðsins olli miklum breytingum á bæjarlífinu enda voru umsvif þess mikil. Á einu andartaki þrefaldaðist nær íbúafjöldi bæjarins, sem um þessar mundir taldi um 900 manns. Skipasiglingar með birgðir urðu tíðar, reisa þurfti skála, leggja vegi og styrkja ýmsa innviði sem kallaði eftir nær öllum vinnandi karlmannshöndum í bænum. Konur unnu við þvotta og veitingarekstur. Efnahagur hins almenna bæjarbúa batnaði mikið á hernámsárunum.




Seyðfirsk útgerð varð hins vegar fyrir miklum skakkaföllum á hernámsárunum. Tundurduflagirðing þveraði fjörðinn, sem gerði sjómönnum óhægt um vik að sækja miðin.

Bryggjuhúsið Angró var tekið undir starfsemi hernámsliðanna. Við bryggju liggur breska herskipið Andes. 
©Tækniminjasafn Austurlands.

Samskipti heimamanna og hermanna

Samneyti milli hermanna og heimamanna var með ýmsu móti. Bryggjuhúsið Angró var nýtt undir kvikmyndasýningar sem bæði Seyðfirðingar og hermenn sóttu oft í viku og um helgar voru haldnir dansleikir.

Í breska hernámsliðinu var um tíma tannlæknir sem stuðlaði að bættri tannheilsu innan fjarðar. Dæmi voru um svartamarkaðsbrask með ýmsan varning.

Ástir milli seyðfirskra kvenna og hermanna kviknuðu. Samkvæmt skýrslum héraðslæknis fæddust á árabilinu 1940-1943 átján „hermannabörn“, sem var um 30% fæðinga á því tímabili. Einhverjar konur giftust úr landi á meðan samband annarra varð ekki lengra.

Loftárásir

Bæjarbúar lifðu í ótta við loftárásir Þjóðverja og loftvarnaflautur hljómuðu reglulega. Haustið 1942 slösuðust fjórir ungir drengir sem voru úti að leika sér í einni slíkri sprengjuárás. Hinn sjö ára gamli Grétar H. Oddsson missti annan fótinn í árásinni.

Í ársbyrjun 1944 var sprengjum varpað á olíubirgðaskipið El Grillo sem lá við akkeri í botni fjarðarins sem varð til þess að flak þess liggur nú á botni hans. Þrátt fyrir umtalsverðar aðgerðir í gegnum tíðina til að þétta skipið og dæla úr því olíu þá lekur það enn með neikvæðum áhrifum á umhverfi og fuglalíf.

NÁTTÚRA OG VEÐURFAR

Yfir Búðareyrinni gnæfir hið rúmlega 1000 metra háa fjall, Strandartindur. Það sem einkennir fjallið eru stórir skálar eða stallar, með miklum lausum jarðlögum sem safna í sig óhemju magni af vatni. Í mikilli rigningartíð geta myndast þær aðstæður að jarðvegurinn getur ekki tekið við meira vatni með þeim afleiðingum að eitthvað gefur sig.

 

Aurskriður á Búðareyri hafa verið tíðar. Níu stórar skriðuhrinur hafa að lágmarki orðið þar frá lokum 19. aldar. Þær hafa komið í kjölfar stórrigninga að undangengnum löngum votviðrisköflum, oftast á haustmánuðum. Oftast hefur verið um að ræða hlaup í lækjarfarvegum. Þessi skriðuföll hafa valdið umtalsverðu tjóni á byggingum og innviðum auk þess sem manntjón varð þann 19. ágúst 1950 þegar móðir lést ásamt fjórum börnum sínum.

Saga Búðareyrar er í aðra röndina smækkuð mynd af miklu stærri sögu um tæknibreytingar, vélvæðingu, verslun og viðskipti, (of)nýtingu náttúruauðlinda, hnattvæðingu og aukna neyslu. Þættir sem í stóra samhenginu hafa leitt til framfara en um leið orðið til þess að í dag glímir mannkynið við ógnvænlegar loftslagsbreytingar sem ógna tilveru þess hér á jörð.

Saga Búðareyrarinnar er líka saga af sambandi manns og náttúru, að búa og starfa undir bröttum fjöllum í þröngum firði þar sem reglulega er hætta af ofanflóðum, bæði í formi snjóflóða og aurskriða. En líka hvernig er að búa í stórbrotinni náttúru sem gefur tilefni til útivistar og nýtingu náttúruauðlinda.

 

 

SKRIÐAN SEM ÖLLU BREYTTI

Þann 18. desember 2020 féll á Seyðisfirði stærsta skriða sem fallið hefur á byggð á Íslandi. Hún féll í kjölfar metúrkomu sem á fimm dögum slagaði hátt í meðaltalsársúrkomu í Reykjavík. Skriðan tók með sér 13 hús og skemmdi önnur. Mörg húsanna voru byggð í kringum aldamótin 1900 með mikið menningar- og byggingasögulegt gildi.

Þrátt fyrir að stóra skriðan hafi ekki tekið nema örfáar mínútur að falla þá ná aðdragandi og eftirmálar hamfaranna yfir mun lengra tímabil. Minni skriður höfðu fallið dagana á undan og valdið skemmdum á húsum og mannvirkjum. Almannavarnir höfðu lýst yfir óvissustigi, innviðir bæjarins voru komnir að þolmörkum og holræsi höfðu ekki undan.

Eftir stóru skriðuna var allur bærinn rýmdur í nokkra daga. Líf margra hafði tekið óvæntum og erfiðum breytingum. Sumir þurftu að vinna úr því að þeir eða einhver þeim nákominn hafði verið í bráðri lífshættu. Heimili annarra eyðilögðust, vinnustaðir voru horfnir og það voru íbúar sem aldrei fengu að snúa aftur heim vegna yfirvofandi hættu.

BÚÐAREYRIN SEM SAFNASVÆÐI

Breytingar í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi, framfarir í tækni og innlendir þættir urðu til þess að í lok 20. aldar stóðu mörg hús á Búðareyri, sem áður hýstu atvinnustarfsemi, auð og án hlutverks.

Á sama tíma var Tækniminjasafnið að koma undir sig fótunum og nýtti fyrrnefnd hús fyrir ýmis konar safnastarfsemi.

Sýningar voru í Vélsmiðjunni, renniverkstæðinu og á efri hæð Gömlu símstöðvarinnar auk þess sem Angró hýsti safngripi.

Í Gömlu skipasmíðastöðinni höfðu iðnaðarmenn aðsetur og voru uppi áform um að þar yrði til þekkingarmiðstöð og aðstaða fyrir viðhald og varðveislu gömlu timburhúsanna sem einkenna Seyðisfjörð.

NÝTT SAFN

Í dag stefnir safnið á uppbyggingu og starfsemi á nýjum stað á Seyðisfirði þar sem ofanflóð ógna ekki tilveru þess.  Safnið mun rísa á Lónsleirunni, rétt við ferjuhöfnina í miðjum bænum.

Bryggjuhúsið Angró sem stóð á Búðareyrinni verður endurbyggt og við hlið þess reist nýbygging.  Áætlanir gera ráð fyrir því að nýtt safn verði risið og tekið til starfa árið 2027.