Eftir Zuhaitz Akizu safnstjóra Tækniminjasafns Austurlands.


Aurskriðan sem féll þann 18. desember 2020 hefur breytt Tækniminjasafni Austurlands að eilífu. Þó nokkrar byggingar sem tilheyrðu safninu eyðilögðust gjörsamlega, aðrar byggingar skemmdust að hluta og svæðið er ekki lengur hentugt til þess að hýsa safn vegna þess að það stendur nú á hættusvæði. Þessi atburður hafði áhrif á allan bæinn og íbúa hans, bæði líkamlega og andlega. Fjórtán byggingar eyðilögðust og hefur vitundarvakning átt sér stað innan samfélagsins varðandi þær ógnir og mögulegar hættur sem náttúran býr yfir. Ógnir gagnvart öryggi íbúanna og heimili þeirra.Aurskriðunnar verður minnst sem sögulegum atburð sem breytti ásýnd bæjarins og þau áhrif sem Tækniminjasafnið varð fyrir af hennar völdum eru stór hluti í þeirri frásögn.

Stór hluti af safnkosti Tækniminjasafnsins var hýst í þeim byggingum sem eyðilögðust.

Fyrstu þrír mánuðirnir eftir að aurskriðan féll fóru í það að bjarga þessum munum, sem vissulega var erfitt verkefni. Óttinn við frekari aurskriður ásamt miklum öryggistakmörkunum, snjóstormum, umfangi og þess mikla magns af hlutum sem þurfti að grafa upp gerði það að verkum að þetta var ógnarstórt verkefni sem þurfti að takast á við. Talsmenn menningarstofnana brugðust einnig skjótt við og gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að aðstoða við björgun og kom hjálpin víða að. Sveitarfélagið Múlaþing, Þjóðminjasafn Íslands, Safnaráð, Héraðsskjalasafn Austfirðinga, Minjasafn Austurlands, Þjóðskjalasafn og Háskólí Íslands sendu öll teymi af sérfræðingum og var stuðningurinn veittur í gegnum allt ferlið. Aðstoð við að meta aðstæður, veita ráð sem og tæknilega aðstoð, skipulagningu verkferla og umsjón með verkefnum.

Grafa þurfti í gegnum hundruð rúmmetra af leðju og mold til þess að finna fyrrum sýningarrými, skrifstofur, geymslurými til að endurheimta muni safnsins. Þessi aðferð var sambland á milli björgunarleiðangurs og fornleiðauppgraftrar. Bera þurfti kennsl á rými mismunandi bygginga, herbergja sem höfðu skipt um stað og færst til, stundum tugi metra frá sinni upphaflegu staðsetningu.

Til að skilja umfang eyðileggingarinnar voru samskipti á milli starfsmanna safnsins, björgunarsveitarmanna og þeirra sem störfuðu við hreinsun á svæðinu afar mikilvæg.

Stöðug samskipti á milli aðila skiptu sköpum svo hægt yrði að tryggja að endurheimtir munir yrðu fyrir sem minnstum skaða meðan á þessu ferli stóð. Þrír einstaklingar sem störfuðu við uppgröftinn voru fyrrverandi starfsmenn safnsins og bjuggu yfir þekkingu á því hvað kynni að finnast á svæðinu og hvaða minjum væri mikilvægt að leita eftir.

Töluvert hlutfall af munum og vélum var bjargað undan stórum hnullungum, steinum og drullu. Nokkur hundruð fiskikör full af munum björguðust úr rústunum, forgangsraða þurfti þeim vélum og munum sem fundust eftir sögulegu og menningarlegu gildi. Vegna umfangs eyðileggingarinnar, víðáttu svæðisins og umfangi skriðunnar og hlutfallslegs skorts á sögulegu gildi margra hlutanna var stundum ekki hagkvæmt eða einfaldlega gerlegt að tryggja verkferla sem byggðust á ítrustu kröfum. Margir rúmmetrar af mold og jörð voru fjarlægðir þangað til rými full af hlutum fundust og þá voru hlutirnir meðhöndlaðir og grafnir upp með höndunum.

Asbest, kvikasilfur, efnaúrgangur frá iðnaði, ætandi sýrur og rafhlöður voru einnig til staðar við uppgröftinn og var þetta yfirvofandi hætta allan tímann, bæði fyrir og við meðhöndlun eftir á. Gripirnir voru næst flokkaðir, það sem tengdist ekki söfnunarstefnu safnsins eða hafði skemmst verulega var síðan fargað.

Til að takast á við þetta stóra verkefni nutum við aðstoðar frá sérfræðingum frá Þjóðminjasafninu. Þeirra framlag var ekki einungis nauðsynlegt heldur einnig lærdómsrík reynsla fyrir alla þátttakendur, frá björgunarsveitarmönnum til sjálfrar stofnunarinnar. Þjóðminjasafn, Þjóðskjalasafn og Héraðsskjalasafn sáu um flokkun skjala, ljósmynda og bóka og veittu ráðgjöf um meðhöndlun safnkostsins.

Þegar búið var að fara í gegnum allt brak úr skriðunni var ákveðið að rýma einnig tvær byggingar í viðbót sem tilheyrðu safninu sem höfðu skemmst en ekki gjöreyðilagst. Til þess að þetta væri gerlegt, þurftum við upplýsingar frá fyrrverandi safnstjórum Tækniminjasafnsins þeim Pétri Kristjánssyni og Jóhann Grétari Einarssyni, þar sem stór hluti safnmunanna var einungis skráður í minni þeirra.

Næsta verkefni var því að bera kennsl á, meta og farga hlutum og var það gert með aðstoð sérfræðinga frá Þjóðminjasafninu. Gerð var og dregin upp förgunarstefna sem fékk staðfestingu Þjóðminjasafns og Safnaráðs. Til að forðast skörun á söfnum og hugsanlega flutning á munum til annarra stofnana tóku þátt fulltrúar frá Héraðsskjalasafni, Minjasafni Austurlands og söfnun frá Fjarðabyggð í þessu ferli.

Á þessum tímapunkti þá er safnkostur Tækniminjasafnsins geymdur í tveimur, tímabundnum rýmum. Vélar og munir frá safninu eru geymd í 300fm. vöruhúsi í iðnaðarhillum og í fiskikörum, en skjöl og ljósmyndir eru geymd í 35 fm skrifstofurými. Bæði geymslurýmin henta fyrir frekari skipulagningu og meðferð, hins vegar eru þau bæði tímabundin. Gera má síðan ráð fyrir miklu meiri vinnu við þrif, skipulagningu, viðgerðir og skrásetningu.

Á heildina litið mun þessi vinna skila mikilvægri þekkingu og reynslu af björgun og endurheimt safnkosts, samhæfingu milli stofnana þegar hættuástand ríkir og mikilvægi þess að tryggja öryggi safna og muna, ekki einungis á Íslandi heldur á alþjóðavettvangi.

Þessi skriðusaga á sér líka góða hlið – ekkert mannfall varð, við misstum einungis hús og hluti. En á sama tíma hvarf hluti af hugarró okkar í þessum litla bæ. Sálrænn bati er og verður alltaf hluti af þessu ferli. Áföll, kvíði og áfallastreita eru lykilatriði sem þarf að taka með í reikninginn þegar svona lagað gerist. Taka þarf tillit til þeirra starfsmanna sem tóku þátt í björguninni og huga að viðeigandi sálrænni meðferð.

Það væri hægt að gera þau mistök að halda að ýtt hafi verið á einn hnapp sem á stóð “björgun” en það er fjarri sannleikanum. Íbúar Seyðisfjarðar, þar með talinn ég sjálfur, hafa þjást af taugaáföllum, þunglyndi, streitu og kvíða. Að hreinsa upp skriðuna og svæðið þar í kring, endurbyggja húsin, sá nýju grasi, færa byggingar allt þetta helst saman í hendur til heilunar samfélagsins


Þessi atburður markaði mikil kaflaskil í sögu Seyðisfjarðar og Tækniminjasafns Austurlands.

Þær fáu byggingar sem enn standa á því svæði þar sem stóra skriðan féll verða að öllum líkindum færðar á annan stað þar sem ekki er unnt að vernda þær. Heimili, skrifstofur og verksmiðja standa á inn milli þeirra. Hvað safnið varðar þá erum við að vinna hörðum höndum að finna því nýja staðsetningu. Við erum að móta nýja og þróaðri safnastefnu og koma á nýjum tengslum við nærliggjandi menningarstofnanir. Þar að auki er unnið að því að styrkja kjarna safnsins og sérstöðu þess.

Við trúum því að Seyðisfjörður hafi verið miðstöð nýsköpunar frá upphafi. Við stefnum því á að nota þá hugmyndafræði og viðhorf til þess að þróa safn með tengingu við samfélagið okkar og iðnaðararfleið en horfa á sama tíma til þeirra sérstöku umhverfisáskorana sem við stöndum frammi fyrir og munum halda áfram að takast á við í framtíðinni.

Tækniminjasafn Austurlands, eftir endurreisn, getur haldið á lofti sögu samfélagsins á Seyðisfirði en einnig verið stofnun sem stuðlar að betri framtíð fyrir næstu kynslóðir.