Eftir Sigurjón Baldur Hafsteinsson, prófessor í safnafræði við Háskóla Íslands.


Um miðjan desember 2020 bárust þau sorglegu tíðindi að aurskriður hefðu fallið ofan við Tækniminjasafn Austurlands og eyðilagt megnið af byggingum safnsins og að safnkostur þess væri að mestu kominn í bland við aurinn sem féll úr fjallinu. Sérfræðingar í ofanflóðum voru fljótir til og sögðu þetta stærstu aurskriðu sem hefði fallið á byggð á Íslandi og bættu við að setja mætti þennan atburð í samhengi við loftlagsbreytingar í heiminum. Talsmenn menningarstofnana brugðust einnig skjótt við og gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til aðstoðar við björgun á þeim menningarverðmætum sem urðu aurskriðunni að bráð. Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, sagði í viðtali í fjölmiðlum að þetta væri áfall fyrir menningarsögu þjóðarinnar og bæjarbúa Seyðisfjarðar, og voru það orð að sönnu.

Fyrir utan það gríðarlega mikla og vandasama verk sem beið forstöðumanns safnsins, Zuhaitz Akizu, að grafa sig ofan í aurinn og bjarga því sem hægt var, lá fyrir að margar hendur þyrftu til þess verkefnis og ekki síst að leggjast á árarnar með að hugsa framtíð safnsins eftir hamfarirnar. Zuhaitz Akizu, Þjóðminjasafn Íslands og námsbraut í safnafræði við Háskóla Íslands tóku sig til og sóttu sameiginlega um styrk fyrir fjóra nemendur í Nýsköpunarsjóð námsmanna til að vinna að verkefni sem sneri að framtíðarmöguleikum safnsins. Eftir að styrkurinn fékkst voru þær Bryndís Súsanna Þórhallsdóttir, Guðný Ósk Guðnadóttir, Vigdís Hlíf Sigurðardóttir, og Bára Bjarnadóttir ráðnar til verkefnisins. Sumarið 2021 unnu þær í einn mánuð á Seyðisfirði við umsýslu í tengslum við safnkostinn og söfnuðu margvíslegum gögnum á staðnum sem síðan var unnið með næstu tvo mánuði í Reykjavík. Markmið verkefnisins voru meðal annars þau að aðstoða safnið við björgunina og búa í haginn fyrir framtíðina, en ekki síst að setja aðstæður safnsins í samhengi við fræðileg sjónarhorn um mikilvægi safna til að takast á við áföll og vera styðjandi við íbúa samfélaga sem orðið hafa fyrir áföllum.

Aðrar áherslur verkefnisins voru þær að skoða tengsl safna við að búa til og stuðla að góðri heilsu og vellíðun fólks, en á undanförnum áratug eða svo hafa söfn og fræðimenn á sviði safnafræða beint sjónum sínum í æ ríkara mæli að þeim hlutverkum safna. Loftslagsváin og aukin umræða um lélega heilsu umhverfis og vistkerfa heimsins hafa ýtt undir þær skoðanir að söfn þurfi að huga betur að þeim þáttum í starfsemi sinni. Í því samhengi eru hamfarirnar á Seyðisfirði áhugavert tilvik, en ef að líkum lætur mega samfélög víða um heim búast við samskonar áföllum fyrir minni og menningarstarf samfélaganna. Það er kannski óviðeigandi að segja það, en aurskriðan á Seyðisfirði og örlög Tækniminjasafnsins, er kærkomið tækifæri til að huga að þessum þáttum af meiri alvöru en áður, ekki eingöngu fyrir íbúa Seyðisfjarðar og nærsveita, heldur einnig önnur samfélög úti í heimi. Söfn og ekki síst samfélög, íbúar þeirra og gestir, geta því margt lært af því sem þar gerðist í núinu og nánustu framtíð.

En, hvað kom út úr þessari vinnu? Samhliða því að nemendurnir fengu kropplæga þekkingu með því að búa á staðnum í mánuð, nokkrum mánuðum eftir að aurskriðurnar féllu, og taka þátt í hreinsunar- og björgunarstarfinu með því að vinna með safnkost safnsins, þá öfluðu þær margvíslegra annarra gagna; tóku viðtöl og áttu í óformlegum samræðum við íbúa Seyðisfjarðar, tóku ljósmyndir, fengu ljósmyndir hjá öðrum, teknar voru drónamyndir, rýnt var í söguleg gögn um skriðuföll á Seyðisfirði, og unnið var úr fræðilegu efni um hliðstæður utan úr heimi. Til að miðla þessari vinnu útbjuggu þær vefsíðu (tekmus.hi.is) þar sem gerð er tilraun til að miðla þeim flóknu atburðarásum sem fóru af stað eftir að skriðurnar féllu. Rásirnar eru margslungnar og sýnir tímalínan röggsama framgöngu fólks við hreinsunarstarfið en jafnframt flókin tilfinningaleg viðbrögð sem taka mun tíma að vinna úr. Að því gefnu er ljóst að mikið starf er fyrir höndum fyrir safnið að greiða úr þessum flækjum en um leið áskorun fyrir það að gera sig enn meira gildandi innan samfélagsins á Seyðisfirði með vellíðan og heilsu íbúanna að leiðarljósi. Sú vinna á brýnt erindi við samfélög út um allan heim.