Sumarið 2022 var unnið að víðtækum endurbótum á eftirstandandi hluta Vélsmiðjunnar. Skipt var um meirihluta af gluggum hússins og aðrir lagfærðir, steypt var upp í gaflinn sem hafði áður tengst elsta hluta hússins sem gjöreyðilagðist í skriðuföllunum 2020, settar voru upp varmadælur, húsið einangrað og því lokað eftir föngum. Þá var gólf jafnað og komið fyrir salernisaðstöðu fyrir ferðamenn. Næstu skref eru drenframkvæmdir og viðgerðir á ytri byrði hússins.

Þó að í Vélsmiðjunni megi ekki geyma menningarverðmæti og –minjar vegna ofanflóðahættu er leyfilegt að hafa þar ýmsa starfsemi. Haustið 2022 verður opnuð í og kringum það sýning sem fjallar um skriðuföllin og áhrif þeirra á safnið og umhverfi þess, hina svokölluðu Búðareyri. Einnig er ljóst að þar verður hægt að taka á móti hinum ýmsu hópum og jafnvel bjóða upp á tónleika og aðra viðburði sem starfsfólk safnsins iðar í skinninu að skipuleggja.