Tímalína

Til að nálgast heimild hvers þáttar í tímalínu er hægt að smella á undirstrikaða textann. Tekið skal fram að þær upplýsingar sem koma fram á heimasíðunni eru á engan hátt tæmandi né gefa heildarmynd af aðstæðum. Einnig þurfa skoðanir viðmælenda ekki að endurspegla skoðanir rannsakenda.
Viðvörun/Trigger warning: Á þessari síðu er fjallað um náttúruhamfarir og upplifanir fólks í kjölfar þeirra.

2020

13. desember

Varað við skriðuhættu
Veðurstofan varar við auknum líkum á skriðuföllum og grjóthruni á Austfjörðum.

15. desember

Skriða fellur á Botnahlíð 17
Aurinn nær upp að glugga.
Lesa meira

© Almannavarnir

Aurskriða fellur
Um klukkan 14:45 fellur önnur skriða.

Skriða fellur á Skaftfell
Haukur Óskarsson sem rekur Skaftfell Bistro segir að ekki sé hægt að opna dyrnar á húsinu fyrir drullu.
Lesa meira

© Björgunarsveitin Ísólfur

„Ég var að horfa upp í hlíðina þegar hún fór af stað. Það var tilkomumikið getum við sagt.“
Hanna Christel Sigurkarlsdóttir verður vitni að því þegar skriðan fellur.
Lesa meira

Hús rýmd á hluta C-svæðis
Um 120 íbúar þurfa að rýma hús sín.
Lesa meira

Fjöldahjálparstöð opnuð
67 manns eru í fjöldarhjálparstöðinni sem opnuð var í félagsheimilinu Herðubreið á vegum Rauða krossins þegar mest lætur en enginn þarf á gistingu að halda.

Önnur skriða fellur
Nær niður að tveimur húsum sem þegar höfðu verið rýmd.

© Kristján Torr

Kristján Torr segir frá
„Um kvöldið rita ég færslu í dagbók þar sem ég lýsi tilfinningunni um að Guð hafi yfirgefið Seyðisfjörð. Seinna um kvöldið hlæ ég að sjálfum mér hvað ég geti verið meló-dramatískur. Þrátt fyrir sjálfs-gagnrýna sefjun yfir hallærislegum dagbókarskrifum berast drunur úr myrkrinu fram eftir nóttu og það er erfitt að sofa.“
Lesa meira

© Kristján Torr

„Það var súrrealískt að fara í göngutúra því við máttum gera það í sóttkvínni og að tala ekki við neinn, því hinir íbúarnir hittust í Herðubreið og ræddu málin en við vorum lokuð inni og út af fyrir okkur“
Nanna Vibe Spejlborg Juelsbo, íbúi á Seyðisfirði, var í sóttkví þegar fyrstu skriðurnar féllu. Henni fannst það súrrealískt að mega fara í göngutúra en ekki spjalla við fólk og geta þá ekki hitt aðra í Herðubreið.

Náttúruhamfarir á Íslandi
Brot úr fræðilegri samantekt eftir Guðnýju Ósk Guðnadóttur.
Lesa meira

16. desember

Hreinsunarstarf hefst
Vandasamt verk að riðja aur og vatnselg af svæðinu og upp úr kjöllurum þar sem enn rennur vatn frá skriðunni.

Ofanflóð
Brot úr fræðilegri samantekt eftir Guðnýju Ósk Guðnadóttur.
Lesa meira

17. desember

Rýming enn í gildi
Enn mega um 100 íbúar hættusvæða ekki snúa heim til sín en fá þó að huga að eigum sínum í fylgd björgunarsveitarmanna.

Holræsakerfið yfirfullt
Slökkviliðsmenn hjá Brunavörnum Austurlands vinna við hreinsun og dæla vatni úr yfirfullu holræsakerfinu og út í sjó. Léttir það töluvert á kerfinu sem mikið álag er á en 3.000-4.000 lítrum er dælt út á mínútu.

Hreinsunarstarf gengur hægt
Hreinsunarstarfi er haldið áfram en sökum þess hve mikið fellur enn úr hlíðinni þá gengur vinnan hægt. Notast er við vinnuvélar til að beina vatni sem flæðir niður fjallið í nýjan farveg.

© Kristján Torr

Kristján Torr segir frá
„Ég sé mann taka eldsneyti í miðri aurskriðu sem ennþá hleypur og hugsa með mér að þetta sé einstakur atburður á heimsmælikvarða.“
Lesa meira

Vatn flæðir enn í Botnahlíð 17
Enn flæðir vatn í hús Davíðs Kristinssonar og Vilborgar Diljár Jónsdóttur tveimur dögum eftir að skriða féll á það.
Lesa meira

Bæjarbúar óttast framhaldið
„Núna þurfa stjórnvöld að girða sig í brók og klára þessar ofanflóðavarnir sem er búið að tala um síðan lengstu menn muna. Það eru hættusvæði hérna og búið að vita af því lengi,“ segir Davíð Kristinsson.
Lesa meira

COVID-19 veldur áhyggjum
„Einn smitaður í svona umhverfi getur sett allt á hliðina,“ segir Jens Hilmarsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Austurlandi.
Lesa meira

„Það er ekki oft sem maður vonast eftir því að það fari að snjóa, en það er núna“
Guðjón Már Jónsson, fulltrúi almannavarna hjá björgunarsveitinni Ísólfi

18. desember

Skriða fellur úr Nautaklauf
Klukkan 1 um nóttina fellur skriða úr sama farvegi og stærsta skriðan sem féll þann 15. desember.

Skriða fellur á Breiðablik við Austurveg 38
Skriðan tekur með sér mannlaust timburhúsið klukkan þrjú um nóttina og flytur það um 50 metra.
Lesa meira

Ólafía Stefánsdóttir er vakin klukkan þrjú að nóttu til vegna rýmingar
Atgangurinn er slíkur að í Herðubreið týnir hún bakpokanum sínum en hann finnst á miðju gólfinu daginn eftir og skyrtan hennar í polli.

Fjöldahjálparstöð opnuð
Um 120 manns þurfa að yfirgefa heimili sín.

„Ég hef aldrei lent í því áður að slökkviliðsgallinn blotni í gegn“
Haraldur Geir Eðvaldsson, slökkviðliðsstjóri á Seyðisfirði, á í fullu fangi með að dæla vatni upp úr kjöllurum og holræsum sem hafa ekki undan. Slökkviliðsmennirnir vinna nú í jaðri hættusvæðisins.

Skriðuefni umlykur bensínstöðina
Ekki er hægt að taka eldsneyti á Orkunni vegna aurs.
Lesa meira

© Almannavarnir

Starfsfólk Náttúruhamfaratrygginga Íslands kannar aðstæður
Reyna að átta sig á umfangi hamfaranna, undirbúa skipulagning á matsstörfum og heimila aðgerðir til að forða frekara tjóni.

„Við förum varlega og erum með talstöðvar í öllum tækjum. Við höfum einu sinni í morgun fengið skilaboð um að bakka út. Þá heyrðist skruðningar í fjallinu. Svo fengum við leyfi til að byrja aftur tíu mínútum síðar“
Kári Ólason, verkstjóri hjá Múlaþingi um hreinsunarstörf eftir skriðurnar.
Lesa meira

© Nanna Vibe Spejlborg Juelsbo. Essays from a Landslide. Einn af þrettán köflum sem fjalla um upplifun af aurskriðunum. Birt á Facebook síðu Saman fyrir Seyðisfjörð.

Heyrir einungis drunurnar en sér ekkert fyrir regni
Jóhann Grétar Einarsson, íbúi Seyðisfjarðar er staddur hinum megin í firðinum

Stór aurskriða fellur
Um hundrað metra langt stykki rifnar úr fjallinu, fellur niður hlíðina og tekur gríðarlegt magn jarðvegs með sér.

„Þetta var bara eins og í hryllingsmynd. Maður horfir á fjallið sem maður elst upp við og bakgarðinn bara springa“
Jafet Sigfinnsson er staddur á heimili sínu ásamt bróður sínum og föður þegar hann sér skriðuna stefna í átt að þeim.
Lesa meira

© Kristján Torr

Kristján Torr segir frá
„[…] svo allt í einu heyri ég högg inn að hauskúpu. Bærinn verður ljóslaus og það fyrsta sem ég hugsa er að eitthvað ónefnt sé að vakna til lífsins og það þurfi myrkur til þess að skapa eitthvað hræðilegt“
Lesa meira

Rafmagn fer af hluta bæjarins

Fólk sést hlaupa undan skriðunni og út úr húsum

Kristinn Már Jóhannesson slökkviliðsmaður hleypur á vettvang
Óraunveruleg upplifun að sjá skriðuna falla niður á bæinn.
Lesa meira

„Það var bara skelfilegt að standa fyrir utan og horfa á þetta og geta ekkert gert, og maður getur eiginlega ekki horft, en maður gat ekki annað en horft heldur“
Aðalheiður Borgþórsdóttir stendur á ferjuhöfninni og fylgist með skriðunni æða að heimili sínu en inni eru eiginmaður hennar og tveir synir.

Ofanflóðavarnir bjarga heimili Aðalheiðar Borgþórsdóttur
Dammurinn sveigir skriðunni frá en þegar hann fyllist af aur og vatni skvettist upp úr honum tugi metra.

© Almannavarnir

„Ég hleyp í gegnum drulluna hraðar en ég hef nokkurn tímann hlaupið á ævinni og fell beint í faðminn á mömmu minni og systur minni“
Jafet Sigfinnsson hleypur út úr húsinu ásamt föður sínum, bróður og hundinum sínum. Úti á götu mæta þeir björgunarsveitarmönnum sem voru einnig á svæðinu þegar skriðan féll, en þeir segja þeim hvert þeir eiga að fara.

© Nanna Vibe Spejlborg Juelsbo. Essays from a Landslide. Einn af þrettán köflum sem fjalla um upplifun af aurskriðunum. Birt á Facebook síðu Saman fyrir Seyðisfjörð.

„Ég veit ekki hvort við hreyfðumst eða skriðan hreyfðist, en ég næ að toga manninn út, við komumst út og náum einhvern veginn að synda út úr skriðunni“
Davíð Kristinsson, varaformaður björgunarsveitarinnar Ísólfs, bjargar félaga sínum úr björgunarsveitarbíl sem lendir í skriðunni.
Lesa meira

„Ég fékk sömu tilfinningu, að við myndum aldrei lifa þeta af“
Sigfinnur Mikaelsson sér hvernig flóðbylgja fer af stað og stefnir á heimili hans þar sem hann og synir hans tveir eru inni.

Skriðan kvíslast í þrennt
„Ef þú skoðar loftmynd af þessu má sjá að flóðið klofnar á svokölluðum múla sem er hryggur í fjallinu. Hann beinir skriðunni inneftir og úteftir. Og skilur þá eftir smá þríhyrning. Við lentum milli tveggja flóða. Ég kalla hann nú Mósesmúla. Hann bjargaði okkur öllum,“ segir Bjarki Borgþórsson.

„Við héldum að húsið myndi detta á okkur“
Brimir Christophersson Büchel, 11 ára, er staddur á heimili sínu Þórshamri ásamt föður sínum þegar skriðan fer af stað og þeir feðgar hlaupa niður að bryggjunni.
Lesa meira

Jóhann Björn Sveinbjörnsson er staddur í golfskálanum ásamt vinum sínum
Einum þeirra berst símtal og honum greint frá því að Múlavegur sé að hrynja.

© Nanna Vibe Spejlborg Juelsbo. Essays from a Landslide. Einn af þrettán köflum sem fjalla um upplifun af aurskriðunum. Birt á Facebook síðu Saman fyrir Seyðisfjörð.

„Ég held að þetta sé bara búið hjá mér Siggi minn, ég kveð þig bara núna“
Sigurður Snæbjörn Stefánsson fær símtal frá föður sínum sem staddur er í húsi beint fyrir neðan skriðuna. Faðir hans sér hvernig skriðan æðir niður í átt að honum og kveður son sinn en á örlagastundu kvíslast skriðan og heldur áfram leið sinni sitt hvoru megin við húsið.

„Svo sá maður aumingja björgunarsveitarmennina alveg á harðahlaupum. Þetta var alveg hræðilegt að horfa á“
Þórarinn Sigurður Andrésson hleypur niður á bryggju til að forða sér frá skriðunni.
Lesa meira

Lítil mistök munu kosta hann lífið
Elvar Már Kjartansson er við vinnu í Skipasmíðastöðinni þegar hann heyrir skriðuna falla.
Lesa meira

Skriðan lendir á Tækniminjasafni Austurlands
Skriðan fellur fyrst á Turninn og Nýju skipasmíðastöðina og tekur þá Gömlu skipasmíðastöðina og hluta af renniverkstæðinu með sér.

„Fjallið er að koma! Gulla stoppaðu! Stoppaðu! Bakkaðu núna!“
Guðlaug Vala Smáradóttir og Rósa Lilja bakka vörubíl undan skriðunni.
Lesa meira

© Tækniminjasafn Austurlands

Það er allt í lagi með mig en Skipasmíðastöðin er farin og líklega hluti af safninu líka
Zuhaitz Akizu hringir í Elvar Má Kjartansson sem var að vinna í Skipasmíðastöðinni þegar skriðan fór af stað.

Náttúruhamfarir og menningararfur
Brot úr fræðilegri samantekt eftir Guðnýju Ósk Guðnadóttur.
Lesa meira

Allar björgunarsveitir Austurlands kallaðar út
Lögreglumenn frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og lögreglunni á Norðurlandi eystra eru sendir á staðinn ásamt sérsveit ríkislögreglustjóra.

„Hún var alvitlaus áður en þetta fór allt af stað. Ég leit því upp í fjall og sá að allt var að fara af stað, fór í stígvél og út“
Sigríður Guðlaugsdóttir segir hundinn Heklu hafa bjargað sér þegar skriðan féll sitt hvoru megin við heimili hennar og eyðilagði allt sem hún komst í snertingu við.

© Nanna Vibe Spejlborg Juelsbo. Essays from a Landslide. Einn af þrettán köflum sem fjalla um upplifun af aurskriðunum. Birt á Facebook síðu Saman fyrir Seyðisfjörð.

Rýmingarsvæðið stækkað
Íbúar Botnahlíðar, Bröttuhlíðar, Múlavegs, Brekkuvegs, Baugsvegs, Hafnargötu, Fossagötu og hluta Túngötu, Miðtúns og Austurvegs eru beðnir um að rýma svæðið og gefa sig fram í fjöldarhjálparstöðinni.

„Ég verð bara að játa það að ég hef aldrei á ævinni verið jafn hræddur“
Björgunarsveitarmaðurinn Guðni Sigmundsson er staddur í húsi sveitarinnar rétt áður en skriðan lendir á því.
Lesa meira

Rýma á allan bæinn
Allir sem staddir eru í bænum eru beðnir um að gefa sig fram í fjöldarhjálparstöðinni í Herðubreið.

Tilfinningin „svo sem ekkert sérstök“
Jóhann Björn Sveinbjörnsson, íbúi Seyðisfjarðar til nærri 88 ára lýsir rólyndi í rýmingarferlinu, en hann er meðal þeirra síðustu til að fara úr bænum.

Safnast saman í Herðubreið
Íbúar lýsa ólíkri upplifun af aðstæðum í Herðubreið eftir stóru skriðuna.

© Nanna Vibe Spejlborg Juelsbo. Essays from a Landslide. Einn af þrettán köflum sem fjalla um upplifun af aurskriðunum. Birt á Facebook síðu Saman fyrir Seyðisfjörð.

Seyðfirðingum boðin gisting á Egilstöðum
Ýmsir aðilar, fyrirtæki og einstaklingar, bjóða bæjarbúum gistingu.

Senda á varðskipið Tý á Seyðisfjörð

Búið er að rýma allan bæinn
Um 25-30 ár eru síðan heilt bæjarfélag var síðast rýmt.

„Öll yfirbyggingin, almannavarnir og veðurstofan og þeir sem áttu að gæta okkar og láta okkur vita klikkuðu algjörlega“
Guðrún Ásta Tryggvadóttir lýsir vonbrigðum yfir upplýsingaskorti og rýmingarviðbrögðum.

705 einstaklingar gefa sig fram við fjöldahjálparstöðvar
540 manns skrá sig á Egilstöðum og 165 á Eskifirði.

Allir Seyðfirðingar hafa fengið gistingu
Enginn þarf að halda til í fjöldahjálparstöð Rauða krossins sem opnuð var í grunnskólanum á Egilstöðum í nótt. Bæjarbúar hafa allir fengið kvöldmat og búið er að finna húsaskól fyrir rúmlega 500 manns.

Rigning á Seyðisfirði hefur slegið met
Frá 14.-18. desember var uppsöfnuð úrkoma á Seyðisfirði 569 mm en aldrei hefur mælst meiri úrkoma á jafn stuttum tíma á Íslandi. Rigning í Reykjavík nemur um 860 mm á ári.

19. desember

Skriða fellur
Skriða fellur innan við Búðará um klukkan sjö um morgun en ekki er talið að hún hafi valdið miklum skemmdum. Skriðan bendir þó til óstöðugleika í jarðlögum.

„Það er ekkert smáræði að flytja allt líf í burtu. Fyrir utan allt fólkið eru hundrað kettir, hænur og gullfiskar“
Svandís Egilsdóttir segir það kraftaverk að ekki hafi orðið manntjón.

Rafmagn að mestu komið aftur á
Tækjahús Mílu enn án veiturafmagns.
Lesa meira

Íbúar Seyðisfjarðar fá ekki að fara heim í dag
Rýming er enn í gildi og neyðarstig almannavarna hefur ekki verið aflétt.
Lesa meira

„Svo vitum við ekkert hvernig bærinn er þegar við megum koma til baka. Og við vitum ekkert hvað gerist“
Páll Thamrong Snorrason lýsir óvissu meðal bæjarbúa
Lesa meira

© Kristján Torr

Kristján Torr segir frá
„Hringja í dýralækni, fá ráð, fá búr, fá róandi og gera áætlun um kattabjörg. Hver á bát ef björgunarsveitinn veitir ekki siglingu? Ef þeir opna ekki fljótlega ætti ég þá að setja á mig hjálm og sigla sjálfur á kajak og sækja kisu? Pælingar…“

© Almannavarnir

Samhugur í fólki
„Þessi samhugur sem allir finna, að fólk er í þessu saman. Þau finna þennan stuðning sem þau mæta alls staðar,“ segir Ólöf Margrét Snorradóttir, sóknarprestur á Egilsstöðum.
Lesa meira

Stóra skriðan annars eðlis
Endurmeta þarf stöðuna að mati Tómasar Jóhannessonar, ofanflóðasérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.
Lesa meira

Mikil úrkomuákefð 
Brot úr fræðilegri samantekt eftir Vigdísi Hlíf Sigurðardóttur.
Lesa meira

© Gunnar Gunnarsson. Skriðusár.

Tækniminjasafnið mikið eyðilagt
Byggingin sem hýsti safnkost safnsins, prentverkstæði, skrifstofur og skjalasafn er nú grafin undir aur og drullu.
Lesa meira

© Tækniminjasafn Austurlands


„Ég held að það hafi ekkert skemmst en það var klárlega mjög óheppilegt og kallar á endurskoðun á því hvar við höfum bækistöð fyrir vettvangsstöð hérna á Seyðisfirði“
Jens Hilmarsson, varðstjóri hjá lögreglunni og vettvangsstjóri á Seyðisfirði eftir að skriða féll á hús björgunarsveitarinnar.

© Björgunarsveitin Ísólfur

Vel hefur gengið í fjölda­hjálpar­stöð Rauða krossins á Egils­stöðum
Talsverður fjöldi fólks hefur leitað í fjöldahjálparstöð Rauða krossins á Egilsstöðum í dag.
Lesa meira

© Sigríður Rún Tryggvadóttir

„Svo vaknaði ég í morgun og átti að fara að skíra og þá var fyrsta hugsunin að ég var ekki með neitt með mér nema gúmmístígvél. Ég ætlaði ekki að standa og skíra barn í gúmmístígvélum“
Sigríður Rún Tryggvadóttir, prestur á Seyðisfirði.
Lesa meira

Rólegra andrúmsloft og bærinn upplýstur með jólaljósum
Seyðisfjörður er nú þögull og lygn. Bærinn er upplýstur með jólaljósum og sumir hafa gleymt að slökkva ljós heima hjá sér áður en þau yfirgáfu bæinn.

Ekki tryggt að allir fái innbú sitt bætt
Sam­­kvæmt bráða­birgða­mati Náttúru­ham­fara­­trygginga Ís­lands er eignatjón vegna aur­skriðanna á Seyðis­­firði metið á um milljarð íslenskra króna.
Lesa meira

20. desember

Fundur viðbragðsaðila, Veðurstofu Íslands og stjórnsýslu á svæðinu
Þórhallur Árnason yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi segir sérfræðinga frá Veðurstofu Íslands og verkfræðistofunni Eflu hafa metið aðstæður á svæðinu í gær og lagt mat á hugsanlegt framhald á skriðuföllum.
„Við vonumst til að geta upplýst íbúa á svæðinu um stöðu mála núna fyrir hádegi,“ segir Þórhallur.

Skipasmíðastöðin, renniverkstæðið og vélsmiðjan gjörónýt
Tvær skemmur að auki urðu fyrir skemmdum.
Lesa meira

Rýmingu aflétt að hluta
Enn er hætta á skriðuföllum á ákveðnum svæðum og verður rýming enn í gildi á þeim. Þeir íbúar sem búa utan þeirra svæða verður heimilt að snúa aftur heim til sín.

305 mega nú fara heim á svæði sem eru ekki skilgreind sem hættusvæði
581 íbúi yfirgaf Seyðisfjörð vegna rýminga.

Vöntun á upplýsingum á ensku í rýmingarferli
Viðmælendur benda á að á svæðinu býr fólk frá fleiri en 30 löndum og að það hafi þurft að koma betur til móts við fólk sem talaði ekki íslensku.

Tveir af hverjum þremur geta snúið heim
„Ég kvíði fyrir að horfa á þetta. Þetta gerðist nánast í myrkri og við sáum ekkert. Ég vil ekki fara núna í kvöld,“ segir Hrönn Ólafsdóttir.
Lesa meira

© Kristján Torr

Kristján Torr segir frá
„Beint niður í áhaldastöð, rífast við lögreglu og gera þeim grein fyrir að ég sé erfiður einstaklingur og þeir losni ekki við mig fyrr en kisa er hólpinn. En svarið er hart NEI. Það fer enginn inn á svæðið.“
Lesa meira

„Og með vindinum kemur kvíðinn
úti er kolsvört hríðin.
Og fjallið það öskrar svo fellur öll hlíðin
og húsin þau hverfa í kófið“

Davíð Kristinsson, varaformaður björgunarsveitarinnar Ísólfs, segir eyðilegginguna ólýsanlega og tengir upplifun sína við lagið Með vindinum kemur kvíðinn eftir Bubba Morthens.
Lesa meira

21. desember

Íbúafundur haldinn yfir netið
Tilgangurinn að upplýsa bæjarbúa um stöðu mála og gefa þeim tækifæri til að koma fyrirspurnum á framfæri.

„Við vanmátum aðstæður því við bjuggumst ekki við skriðu af þessari stærðargráðu“
Harpa Grímsdóttir, fagstjóri ofanflóðavaktar Veðurstofu Íslands, segir sérfræðinga Veðurstofunnar ekki hafa átt von á jafn stórri skriðu á svæðinu en skriðan sem féll utan við Búðará var sú stærsta sem fallið hefur á þéttbýli á Íslandi.
Lesa meira

© Kristján Torr

Kristján Torr segir frá
„Áður en ég veit að því leggjum við að gömlu bryggjunni heima, Húsið er heilt og það er go-time eins og í Hollywood, 5 mínútur inn og út!“
Lesa meira

22. desember

Ráðherrar heimsækja Seyðisfjörð
Viðbrögð bæjarbúa misjöfn.
Lesa meira

Kristján Torr segir frá
„Þegar eftirvæntingin er í hámarki ryðst inn hópur af fjölmiðlafólki og ríkisstjórninn gengur inn í salinn til þess að láta mynda sig með “aumingja fólkinu”“
Lesa meira

„Það þarf að sýna mikla nærgætni þegar farið er að moka upp heimili fólks“
Guðbrandur Örn Arnarson, aðgerðastjóri Landsbjargar, segir mikið verk fyrir höndum.
Lesa meira

„Maður er bara klökkur vegna stórkostlegra Íslendinga sem hjálpa okkur“
Berglind Sveinsdóttir, formaður Múlasýsludeildar Rauða krossins, segir landsmenn hafa sent ýmsar gjafir til Seyðfirðinga og styrkt þá.

© Kristján Torr

Farið með bát hinum megin í fjörðinn og byrjað að vinna við handtínslu í skriðunni
Guðlaug Vala Smáradóttir, íbúi á svæðinu og fyrrum starfsmaður Tækniminjasafnsins tekur þátt í aðgerðunum og er fengin til að hafa yfirsýn með munum tengdu safninu vegna sérþekkingar hennar.
Lesa meira

Blái skjöldurinn í samstarfi við björgunarsveitir
Alþjóðasamtökin sem vinna að verndun menningararfs í hættu leggja björgunarsveitum lið vegna eyðileggingar Tækniminjasafns Austurlands.

Um hundrað manns fá að snúa aftur heim
Heimili hátt í 200 bæjarbúa enn rýmd.

23. desember

Um 8.000 ljósmyndum bjargað óskemmdum úr skriðunni
Meðlimir Rústasveitar Austurlands finna öryggisskáp í eigu Tækniminjasafnsins sem inniheldur þúsundir gamalla mynda af sögu Seyðisfjarðar og ýmis skjöl.

Ég fór þarna niður eftir sem félagi í rústasveitinni og við fundum myndaskápinn. Það var nú ég sem fann hann því ég vissi hvar hann var í húsinu“
Baldur Pálsson, félagi í rústasveitinni. Lesa meira

Davíð Kristinsson gladdur með árituðu Bubba-safni
Davíð missti vínylplötur sínar í hamförunum en Alda Music gefur honum ný eintök af plötum Bubba Morthens sem tónlistarmaðurinn áritar. Þá býður Bubbi Seyðfirðingum á tónleika.

Net mælitækja þétt svo betur sé hægt að fylgjast með hreyfingum í fjallinu
Bjarki Borgþórsson, snóeftirlitsmaður fyrir Veðurstofu Íslands og íbúi á Seyðisfirði, kallar eftir því að eftirlit verði eflt enn frekar svo upplýsingar berist í rauntíma.

© Jón Haukur Steingrímsson. Bjarki Borgþórsson við skriðusárið.

24. desember

Jól haldin í Herðubreið
Umsjónar- og rekstraraðilar Herðubreiðar elda jólamat í Herðubreið með aðstoð vina, en að minnsta kosti tuttugu manns eru enn á hótelherbergjum án eldunaraðstöðu.

„Jólin voru yndisleg, við fengum lánaða íbúð á Seyðisfirði á Þorláksmessu“
Haraldur Björn Halldórsson hélt jólin í faðmi fjölskyldunnar og segir mikla samkennd hafa ríkt meðal íbúa bæjarins.

28. desember

Héraðsskjalasafn Austfirðinga og Minjasafn Austurlands taka á móti peningaskáp sem fannst nánast óskemmdur
Elsa Guðný Björgvinsdóttir segir skápinn innihalda „heilmikið af ljósmyndum og mjög merkilegum skjölum og gögnum.“ Lögreglubíll ferjar skápinn yfir ófæra heiðina og starfsfólk Minjasafns Austurlands hefur verk við að þurrka gögnin og passa að þau verði ekki fyrir frekari skemmdum.

„Það var bara ótrúleg eyðilegging og ótrúlega súrrealískar aðstæður,“ segir Elsa Guðný Björgvinsdóttir
Safnstjóri Minjasafns Austurlands fer yfir til Seyðisfjarðar að kanna aðstæður Tækniminjasafnsins eftir skriðurnar fyrir hönd Þjóðminjasafns Íslands.

29. desember

Rústasveit Austurlands sinnir verðmætabjörgun fyrir Tækniminjasafnið
Fyrsta eiginlega útkall sveitarinnar eftir tuttugu ára þjálfun.
Lesa meira

Veðurstofan telur 75.000 rúmmetra efnis hafa fallið í skriðunni
Ef aka á því öllu í burtu gæti þurft 5.000 hlöss til verksins, enda taka vörubílar um 12-15 rúmmetra að jafnaði.

30. desember

31. desember

Kertafleyting við Lónið
Margir bæjarbúar vilja sleppa við að heyra hávaðann sem fylgir því þegar flugeldum er skotið á loft enda gæti hann minnt á drunurnar sem heyrðust í kjölfar skriðanna. Í stað þess að skjóta upp flugeldum á áramótunum taka því margir bæjarbúar þátt í kertafleytingu í staðinn.

Áramót haldin í Herðubreið
Áramót haldin í Herðubreið af umsjónar- og rekstraraðilum félagsheimilisins.


1. janúar

Alþingi samþykkir aukin fjárframlög til byggingar varnarmannvirkja vegna ofanflóða
Uppbyggingu ofanflóðamannvirkja flýtt.

Fjáröflunarverkefninu Saman fyrir Seyðisfjörð hrint af stað
Á bak við verkefnið standa aðilar tengdir LungA, List í ljósi og Heima, sem skipulögðu fjáröflunartónleika. Að verkefninu kemur fjölbreyttur hópur listamanna, bæði tónlistar- og myndlistarmenn.

© Lögreglan

Tilfinningaþrungið andrúmsloft á Seyðisfirði
Íbúi telur stöðugar rýmingar taka sinn toll á samfélagið.

Of mikið lagt á tvær manneskjur sem voru líka sjálfar heimilislausar
Sesselja Hlín Jónasardóttir, annar rekstraraðili Herðubreiðar, er ekki sátt með hvernig staðið var að málum varðandi fjöldahjálparstöð í Herðubreið.
Lesa meira

2. janúar

© Ólafía Stefánsdóttir

Kveikir á fjórða kertinu
Ólafía Stefánsdóttir kveikir á síðasta kerti aðventukransins.
Lesa meira

6. janúar

Bannað verður að endurbyggja hús á lóðum sem lentu í skriðunum
Sveitastjórn Múlaþings samþykkir tillöguna sem unnin var í samvinnu við Náttúruhamfaratryggingar Íslands.
Lesa meira

Loftslagsbreytingar orsakaþáttur hamfaraflóðs á Seyðisfirði
Brot úr fræðilegri samantekt eftir Vigdísi Hlíf Sigurðardóttur.
Lesa meira

7. janúar

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, heimsækir Seyðisfjörð ásamt þjóðminjaverði og forstjóra Minjastofnunar
Lilja segir Tækniminjasafnið hafa varðveitt minjar um hið mikilvæga hlutverk sem Seyðisfjörður hafi gengt sem tengipunktur Íslands við umheiminn og að menntamálaráðuneyti muni styðja við endurreisn safnsins sem og við öfluga listastarfsemi bæjarins.

Næstu skref Tækniminjasafnsins ákveðin
Zuhaitz Akizu, forstöðumaður safnsins segir vikurnar eftir skriðurnar hafa einkennst af símtölum og fjarfundum þar sem ræða þurfti ferlið, reglugerðir, björgun muna og aðkomu ytri aðila.

Fiski landað úr togaranum Gullveri NS við Strandarbakka í fyrsta sinn
Sökum hamfaranna var ekki hægt að landa við frystihúsið líkt og venjan er.

9. janúar

Fjárframlag til Heilbrigðisstofnunar Austurlands aukið
Heilbrigðisráðherra samþykkir um sautján milljóna króna fjárframlag sem renna á til geðheilbrigðismála.

13. janúar

© Ólafía Stefánsdóttir

„Rýmingartöskur heimilisins tilbúnar ef með þarf. Vona að við þurfum ekki að nota þær“
Ólafía Stefánsdóttir, íbúi í Botnahlíð, býst allt eins við því að þurfa yfirgefa heimili sitt á ný.

15. janúar

Íbúðarhús rýmd á ný í varúðarskyni
Mikilli úrkomu spáð.
Lesa meira

17. janúar

19. janúar

Hópur sérfræðinga heimsækir Seyðisfjörð og kannar aðstæður Tækniminjasafnsins í tveggja daga ferð
Fundað er með heimamönnum, neyðaráætlun sett saman og umsókn um fjármagn send til mennta- og menningarmálaráðuneytis.

© Lögreglan

20. janúar

Byggðaráð Múlaþings samþykkir að ráða einstakling til að taka viðtöl við fólk sem vitni varð að stóru skriðunni
Tilgangurinn að afla upplýsinga sem gagnast til að finna lausnir á framtíðarvörnum.

25. janúar

© Saman fyrir Seyðisfjörð

27. janúar

Hópur sérfræðinga kemur til Seyðisfjarðar
Unnið er að björgun og flokkun safngripa í þrjá daga.

© Bára Bjarnadóttir. Hluti Vélsmiðjunnar sem stendur eftir, tekið 7. júní 2021

Missir af húsakosti Tækniminjasafnsins og munum
Íbúar lýsa persónulegri tengingu við safnkost enda höfðu margir þeirra gefið safninu eigin muni. Saga húsanna var mikil og nýttist kosturinn vel undir ýmsa listræna starfsemi.

28. janúar

1. febrúar

Að fara aftur á fjöll á skíði líkt og að fara strax aftur á hestbak þegar maður dettur af baki
Nanna Vibe Spejlborg Juelsbo fannst hún ekki þekkja fjallið líkt og áður og fann þörf fyrir að ná sáttum við það að nýju.

„Ég er allavega í þeim sporum að ég treysti ekki rýmingu lengur eftir þetta“
Oddný Björk Daníelsdóttur hafði ekki verið gert að rýma heimili sitt áður en stóra skriðan fór af stað stuttu fyrir ofan það.

Sveitastjórn Múlaþings fundar
Óska eftir stuðningi Ofanflóðasjóðs við uppkaup eigna.
Lesa meira

8. febrúar

Söfnun hafin fyrir Tækniminjasafnið
Markmiðið er að safna 10 milljónum en ef minna safnast rennur upphæðin óskert til safnsins. Karolina Fund, síðan sem söfnunin fer fram á, gerði undantekningu á reglum sínum í ljósi aðstæðna en vanalega þarf heildaupphæð að safnast svo hún sé greidd út.

© Bára Bjarnadóttir. Útsýni frá lóð þar sem Skipasmíðastöðin stóð áður, tekið 7. júní 2021.

Zuhaitz Akizu, forstöðumaður Tækniminjasafnsins, óskar eftir aðstoð Múlaþings við að útvega geymsluhúsnæði fyrir safnmuni
Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings samþykkir að athuga með mögulega aðkomu ríkisins í geymslumálum safnsins.

© Bára Bjarnadóttir

10. febrúar

Önnur ferð sérfræðinga Þjóðminjasafnsins til Seyðisfjarðar
Unnið er að björgun og flokkun safngripa í þrjá daga. Grisjunaráætlun er unnin af starfsfólki Tækniminjasafns í samstarfi við sérfræðinga á Þjóðminjasafni.

© Tækniminjasafn Austurlands

Viðbrögð og fyrirbyggjandi aðferðir safna
Brot úr fræðilegri samantekt eftir Guðnýju Ósk Guðnadóttur.
Lesa meira

© Tækniminjasafn Austurlands. Grisjunarstarf í Mjölskemmunni.

Mun aldrei gleyma fiskilyktinni
Munum Tækniminjasafnsins sem bjargað var úr skriðunni er komið fyrir í Mjölskemmunni. Í samstarfi við Þjóðminjasafnið eru gripirnir flokkaðir og hreinsaðir. Zuhaitz Akizu, forstöðumaður safnsins, tengir hreinsun munanna við sterka fiskilykt sem var viðvarandi í geymslunni.

11. febrúar

„Þetta er líka að gerast í desember. Það er margt þarna sem er óvenjulegt“
Jarðfræðingurinn Þorsteinn Sæmundsson telur að skriðurnar megi rekja til veðurfarsbreytinga. Vísbendingar eru um að frost í fjöllum sé að minnka.

Heimastjórn Seyðisfjarðar fundar
Skipulagsmál, ofanflóðavarnir og áframhaldandi áfallahjálp fyrir íbúa meðal umræðuefna.
Lesa meira

Vinnu við varnargarða við Búðará lokið
Unnið við varnargarða ofan við Tækniminjasafnið.

Fjallið þurfti að hrynja fyrst
Guðlaug Vala Smáradóttir segir að rætt hafi verið um hættuna af fjallinu í mörg ár en að eftir skriðuföllin sé loks verið að bregðast almennilega við.

15. febrúar

Hættustig vegna snjóflóðahættu á Seyðisfirði og þrjú hús rýmd
Óvissustig er á Austfjörðum en tvö vot snjóflóð og tvö krapaflóð hafa fallið.

19. febrúar

Grisjunaráætlun staðfest af Safnaráði

Ábyrgð og hlutverk safna gagnvart loftslagsbreytingum
Brot úr fræðilegri samantekt eftir Vigdísi Hlíf Sigurðardóttur.
Lesa meira

© Lögreglan

24. febrúar

Sérfræðingur frá Þjóðskjalasafni Íslands kemur til Seyðisfjarðar
Andri Már Jónsson fer yfir skjöl sem bjargað var úr skriðunni og eftirstandandi húsnæði Tækniminjasafnsins. Tveggja daga ferðin er í samstarfi við Héraðsskjalasafnið á Egilsstöðum.

1. mars

Tækniminjasafnið enn á neyðarstigi við björgun muna
Safninu óheimilt að geyma muni á C-svæði og flytja þarf muni úr Angró, Skemmunni, Vélsmiðjunni og Gömlu símstöðinni.

Hópur sérfræðinga heimsækir Seyðisfjörð í tvo daga og vinnur að björgun, flokkun og förgun safngripa samkvæmt nýsamþykktri grisjunaráætlun
Í hópnum eru Freyja Hlíðkvist Ómarsdóttir, Lilja Árnadóttir, Pétur Sörenson og Elsa Guðný Björgvinsdóttir. Lesa meira

© Tækniminjasafn Austurlands

10. mars

Endurbygging húsa óheimil þar til endurskoðað hættumat liggur fyrir
Ekki má endurbyggja hús á Hafnargötu 25, 35-37 og 38 fyrr en endurskoðað hættumat liggur fyrir og ráðist hefur verið í gerð fullnægjandi ofanflóðavarna.

19. mars

Hreyfinga vart við upptök stóru skriðunnar
Almannavarnir vara við að hrunið gæti úr sárinu en telja ekki hættu í byggð.

24. mars

Breytingar á bráðaframkvæmdum vegna skriðufallanna
Grafa á nýjan skurð við ytri hluta Botnahlíðar, færa til farveg Búðarár og gera nýjan stokk undir Hafnargötu.

© Guðný Ósk Guðnadóttir

12. apríl

Mikið gerst á stuttum tíma
Íbúar lýsa ánægju með uppbyggingu og hreinsun bæjarins í kjölfar skriðanna.

3. maí

Færa þarf frystihúsið og bræðsluna af hættusvæði
Ólafur Sigurðsson, fulltrúi í heimastjórn Seyðisfjarðar, kallar eftir því að Ofanflóðasjóður taki þátt í kostnaðinum en samkvæmt reglugerð kaupir sjóðurinn einungis íbúðarhús.

15. maí

© Sigurjón B. Hafsteinsson

„Rólan er það eina sem er eftir […] Ég sá einhvern lítinn krakka vera að róla sér þarna um daginn og mér fannst það bara vinalegt“
Haraldur Björn Halldórsson var einn þeirra sem missti heimili sitt.
Lesa meira

25. maí

1. júní

© Bára Bjarnadóttir. Á bak við Vélsmiðjuna, tekið 8. júní 2021.

Rannsakendur verkefnisins Eyðing og framtíð safns, samfélags og þjóðminja koma mánaðarlangt til Seyðisfjarðar
Aðstoðað er við grisjun og önnur verkefni, viðtöl eru tekin við íbúa og forstöðumann Tækniminjasafns Austurlands.

© Bára Bjarnadóttir. Úr grisjun, júní 2021
© Bryndís Súsanna Þórhallsdóttir. Dráttarvél sem var grafin upp úr rústum Tækniminjasafnsins, Vélsmiðjan sést í bakgrunni.

Bein snerting við safneign
Brot úr fræðilegri samantekt eftir Báru Bjarnadóttur.
Lesa meira

10-11. júní

© Tækniminjasafn Austurlands. Mynd úr vinnusmiðju, 10. -11. júní 2021.

„Tækniminjasafn Austurlands – Framtíð og stefna“
Vinnustofur haldnar á Seyðisfirði.
Lesa meira

© Bára Bjarnadóttir. Innan í Vélsmiðjunni, tekið 8. júní 2021.

Safneign, heilsa og vellíðan
Brot úr fræðilegri samantekt eftir Báru Bjarnadóttur.
Lesa meira

Söfn og heilsa
Brot úr fræðilegri samantekt eftir Bryndísi Súsönnu Þórhallsdóttur.
Lesa meira

30. júní

Búðarárfoss verður brúnn
Sigurður Snæbjörnsson, íbúi á Seyðisfirði segir þetta gerast einstaka sinnum og að líklegast sé engin hætta á ferð. Hins vegar hafi slíkir atburðir sálræn áhrif á hann.

Reynt að fyrirgefa fjallinu
Zuhaitz Akizu, forstöðurmaður Tækniminjasafns Austurlands lýsir því hvernig grasið vaxi aftur og að þó að fjallið gæti runnið yfir mann í næstu viku geti hann ekki annað en reynt að fyrirgefa því.

Náttúran er hlutlaus
Sigurður Snæbjörn Stefánsson er meðvitaður um yfirvofandi hættu sem stafar af fjallinu en segir að ekki sé hægt að breyta náttúrunni.

„Þarna plantaði ég sjálfum mér og þarna vil ég búa“
Haraldur Björn Halldórsson kvíðir ekki fyrir vetrinum og ætlar bara að taka einn dag í einu. Þrátt fyrir yfirvofandi ógn í fjallinu segist hann vilja búa áfram undir fossinum á túninu.

© Matjaz Rust og Katja Goljat. Ljósmynd í seríu framleidd af Ströndinni sem fékk úthlutaðan styrk úr hvatasjóði.
© Nanna Vibe Spejlborg Juelsbo. Essays from a Landslide. Einn af þrettán köflum sem fjalla um upplifun af aurskriðunum. Birt á Facebook síðu Saman fyrir Seyðisfjörð.

„Mér hefur alltaf fundist kósí að vera inni í húsi og hef haft traust á aðstæðunum, en allt í einu eru vindur og mikil rigning orðin ógnvænleg“
Guðrún Ásta Tryggvadóttir

Finnur fyrir auknum veðurótta
Sesselja Hlín Jónasardóttir hjúfrar sig upp að kettinum sínum þegar veður er slæmt, en bæði virðast veðurhræddari eftir skriðurnar.

Framtíðarsýn

© Bára Bjarnadóttir. Innan í Vélsmiðjunni, tekið 8. júní 2021.

Það verður heilandi augnablik þegar Tækniminjasafnið verður opnað á ný
Jónína Brynjólfsdóttir, starfsmaður Austurbrúar og Tækniminjasafnsins lýsir mikilvægi þess að byggja upp safnið hratt og örugglega.

© Bára Bjarnadóttir. Hluti af grunni Vélmiðjunnar, tekið 7. júní 2021.

Ekki hægt að taka öryggi safns sem sjálfsögðu
Zuhaitz Akizu, forstöðumaður Tækniminjasafns Austurlands, bendir á að hann hafi lært af aurskriðunum að öryggi safns sé ekki sjálfsagt, og að vona að eitthvað gerist ekki í þúsund ár dugi ekki til.

Aurskriðurnar og Tækniminjasafn Austurlands
Viðmælendum ber á um hvort safnið ætti að taka auskriðurnar inn sem hluta af safnastarfi og sýningum. Fleiri segja þó að aurskriðurnar séu orðnar hluti af sögu safnsins og eigi því erindi þangað.

© Bára Bjarnadóttir. Forstöðumaður Tækniminjasafns Austurlands stendur á grunni Vélsmiðjunnar ásamt starfsmanni safnsins og rannsakendum, tekið 7. júní 2021.

Lifandi safn
Fólk sammælist um mikilvægi þess að hlúa að lifandi safnastarfi Tækniminjasafns Austurlands, sem er hluti af sérstöðu þess. Zuhaitz Akizu, forstöðumaður safnsins segist vilja að gestir séu frekar þátttakendur en vitni.