Saga safnsins

Í dag

Tækniminjasafnið stendur á miklum tímamótum. Þann 18. desember 2020 féll stór aurskriða á Seyðisfirði sem tók með sér fjölda húsa, þ. á m. stóran hluta af húsum safnsins og skemmdi önnur. Mikið tjón varð á safnkostinum, stór hluti af honum gjöreyðilagðist en öðru var hægt að bjarga. Í ljósi þessa er unnið að heildarendurskoðun á starfsemi safnsins, viðfangsefnum og stefnu.

Ljóst er að nokkur ár munu líða þar til að safnið getur flutt í nýtt húsnæði. Þrátt fyrir það situr starfsfólk ekki auðum höndum. Settar eru upp sýningar, staðið fyrir og tekið þátt í margvíslegum viðburðum, samstarfi og menningarverkefnum, rannsóknir og fræðsla eru stundaðar auk þess sem unnið er hörðum höndum að áframhaldandi björgun safnkostsins og framtíðaruppbyggingu.   

Stefnt er að því að byggja upp lifandi safn með fjölbreyttum sýningum, viðburðum, verkstæðum og vinnustofum, sem verður ómissandi viðkomustaður gesta Seyðisfjarðar í framtíðinni, en um leið í nánu sambandi og samtali við heimamenn. 

Fyrir skriðu

Tækniminjasafn Austurlands var formlega stofnað árið 1984 en fyrsta sýning þess var opnuð á 100 ára afmæli Seyðisfjarðarkaupstaðar árið 1995. Það fjallaði um þann hluta Íslandssögunnar sem snýr að tæknivæðingu landsins frá um 1880 til dagsins í dag. Markmið safnsins var að safna, varðveita, skrá og sýna verkkunnáttu, muni, minjar og frásagnir sem hafa gildi fyrir sögu tækniþróunar á starfssvæðinu.

Tækniminjasafnið sýndi hvernig tæknibreytingar sem snúa að véltækni, rafmagni, fjarskiptum, samgöngum og byggingalist voru samofnar breytingum á lifnaðarháttum og umhverfi. Safnið var  staðsett á svokallaðri Wathnestorfu á Seyðisfirði en þar var að finna hús sem spila stór hlutverk í tækniminjasögu landsins, meðal annars svokallað Wathneshús og Vjelsmiðju Jóhanns Hanssonar.  

Upplýsingar/Information

Hafnargata 44, 710 Seyðisfjörður, Ísland/Iceland

Hafa samband/Contact

+354 4721696

tekmus@tekmus.is

Frjáls framlög/Donations

Kt. 440203-2560, Account:0133-15-000450

Foreign donations: IBAN: IS950133 1500 0450 4402 0325 60

SWIFT (BIC): NBIIISRE