Í útigalleríinu Þá&nÚ á Lónsleiru má nú skoða sýninguna The Landslide Project.

Þann 18. desember 2020 féll á Seyðisfirði, í kjölfar úrhellisrigningar í marga daga, stærsta aurskriða sem hefur fallið á íbúðabyggð á Íslandi. Áður höfðu fallið þónokkrar minni skriður á bæinn og íbúar voru margir orðnir uggandi yfir ástandinu. Stóra skriðan eyðilagði þrettán hús og eitt safn, auk þess sem stór hluti bæjarins hvarf undir aurinn. Innan nokkurra klukkutíma voru skelfdir íbúar bæjarins allir á leiðinni yfir heiðina í bílalest, eftir eina veginum sem liggur frá Seyðisfirði. Á þeim tímapunkti vissi enginn hvort allir hefðu bjargast. Fyrir eitthvert kraftaverk björguðust allir. 

Eftir þessar hörmungar og átakanlegar sögur af björgunarátakinu, ákvað Ströndin Studio, ljósmyndamiðstöð á Seyðisfirði, að fylgja eftir sögum fólks af atburðunum og björguninni. Ljósmyndararnir Katju Goljat og Matjaž Rušt tóku myndir af íbúunum til að fanga eftirköst náttúruhamfaranna og áhrif þeirra, ekki aðeins á landslagið heldur einnig á fólkið sem varð fyrir þeim. 

Hægt er að skoða allar myndirnar og fá frekari upplýsingar um verkefnið á heimasíðu þess.   

Ljósmyndir: Ströndin studio