Um verkefnið

Eyðilegging og framtíð safns, samfélags og þjóðminja

Stærsta aurskriða sem fallið hefur á byggð á Íslandi féll m.a. á Tækniminjasafn Austurlands á Seyðisfirði þann 18. desember 2020 og má að öllum líkindum rekja til loftslagsbreytinga. Hús safnsins gjöreyðilögðust, þjóðminjar grófust undir og margar af þeim eyðilögðust. Nokkuð af minjunum, og þar með minningum samfélags og þjóðar hefur verið bjargað frá eyðileggingu. Náttúruhamfarirnar eru mikið áfall og skilja eftir stórt sár í landslagi, samfélaginu og samskiptum fólks.

Verkefnið er styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna og er samstarfsverkefni námsbrautar í safnafræði við Háskóla Íslands, Tækniminjasafns Austurlands og Þjóðminjasafns Íslands. Í þessari þriggja mánaða rannsókn var lagt upp með að rannsakendur skyldu kynna sér aðstæður Tækniminjasafnsins í kjölfar skriðufallanna á ýmsa vegu, gegnum viðtöl, fræði og þátttökuathugun. Auk þess að öðlast skilning á upplifun viðmælenda á skriðuföllunum og aðstæðum Tækniminjasafnsins, var tilgangur gagnaöflunar gegnum viðtöl að varðveita sögur tengdar skriðuföllunum fyrir frekari rannsóknir.

Rannsakendur eyddu fyrsta mánuði verkefnisins á Seyðisfirði þar sem þær aðstoðuðu við grisjun á safnkosti og tóku viðtöl við forstöðumann og íbúa bæjarins. Þar á eftir tóku við frekari viðtöl við íbúa svæðisins, aðstandendur safnsins og sérfræðinga innan safnaheimsins. Farið var yfir fjölmiðlaefni tengt skriðuföllunum og safninu, auk þess að fræðilegar samantektir voru gerðar sem varpa ljósi á söfn í samhengi heilsu og vellíðunar, loftslagsbreytinga og náttúruhamfara.

Rannsóknarferlið var margslungið og er birtingarmynd þess á heimasíðunni í takt við það. Heimasíðan inniheldur tímalínu þar sem fléttað hefur verið saman fræði, fjölmiðlaefni og viðtölum þar sem koma fyrir bæði sögur samfélags og safnastarfs í kjölfar aurskriðanna. Von rannsakenda er að efnið veiti lesendum innsýn í flókið mengi aðstæðna, bæði hvað varðar upplifun einstaklinga, samfélags og safnastarfs. Það skal tekið fram að þær upplýsingar sem koma fram á heimasíðunni eru á engan hátt tæmandi né gefa heildarmynd af aðstæðum. Einnig endurspegla skoðanir viðmælenda ekki skoðanir rannsakenda.

Öll viðtöl sem tekin voru fyrir rannsóknina verða áfram í vörslu leiðbeinanda og ábyrgðarmanns verkefnisins, Sigurjóns Baldurs Hafsteinssonar, prófessors í safnafræði. Rannsakendur voru Bára Bjarnadóttir meistaranemi í verkefnastjórnun, Bryndís Súsanna Þórhallsdóttir meistaranemi í þjóðfræði, Guðný Ósk Guðnadóttir meistaranemi í þjóðfræði og Vigdís Hlíf Sigurðardóttir meistaranemi í safnafræði.

Rannsakendur vilja skila kærum þökkum til þátttakenda í rannsókninni, framlag þeirra var einstakt og ómetanlegt.