Mikil úrkomuákefð

© Gunnar Gunnarsson. Skriðusár. „Setlög sem ekki hefur hrunið úr í árþúsundir“.

Í desember 2020 voru margir áhættuþættir sem spiluðu saman. Aldrei hefur mælst eins mikil úrkoma á Íslandi og dagana fyrir skriðuna, en frá 14.-18. desember mældist hún 570 mm. Til samanburðar er ársúrkoma í Reykjavík um 860 mm. (Pétur Magnússon, 2020). Stóra skriðan féll úr Botnabrún og náði frá Búðará alla leið að Stöðvarlæk. Skriðusárið er um 200 metra breitt (Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir, 2020). Heildarbreidd skriðutungunnar í byggðinni var um 320 m. og var hún 435 m löng frá efsta brotsári út í ysta hluta tungunnar. Aurskriðurnar sem féllu á Seyðisfirði eru þær mestu sem fallið hafa á þéttbýli á Íslandi. (Náttúruhamfaratrygging Íslands, 2020). Ekki var búið að rýma svæðið og því er mikið mildi að ekki skildi verða manntjón, því eyðileggingin sem skriðan olli var gríðarlegt.

Esther Hlíðar Jensen landmótunarfræðingur hjá Veðurstofu Íslands útskýrir að ekki hafi verið talin hætta á svæðinu vegna þess að úrkoman sem féll var á formi snjókomu ofar í hlíðinni og var því ekki talin auka líkur á skriðu. Auk þess hafði ekki verið metin hætta á eins djúpum veikleika í brúninni og raun bar vitni. Ester telur þetta nánast nýja gerð af skriðum því hefðbundnar aurskriður séu bundnar við farvegi en samansöfnuð úrkoma í vatnsfarvegi getur hrifið með sér laust efni. Hættumatið er byggt á halla hlíða, farvegum og því hversu mikið af lausu efni er til staðar. Þessi nýja gerð hamfaraskriða nær dýpra niður, hrífur ekki aðeins með sér jarðveg af yfirborðinu í aurskriðufarveg sem safnast hefur smátt og smátt í, heldur náði hamfaraflóðið svokallaða niður í dýpri setlög þar sem hafði myndast veikleiki vegna mikillar úrkomu á skömmum tíma. Dýpri setlög eru undir eðlilegum kringumstæðum mjög stöðug, en það er ástæða þess að þessi skriða hrífur með sér svona mikið efni (Katrín Ásmundsdóttir, 2020). Harpa Grímsdóttir hópstjóri ofanflóðavöktunar Veðurstofunnar, tekur undir með Esther að sú skriða hafi verið annars eðlis en þær sem höfðu fallið fyrr í vikunni. „Þær athuganir sem farið hafi fram á henni eru aðeins frumathuganir en þær sýna skriðusár sem er allt að 20 m á hæð og svo virðist sem það nái djúpt ofan í setlög sem ekki hafi hrunið úr í árþúsundir. Við bjuggumst ekki við skriðu af þessari stærðargráðu og vanmátum aðstæður utan Búðarár þar sem skriðan féll. Við bjuggumst við skriðum, til dæmis í Búðará, en túlkun jarðfræðilegra greininga höfðu ekki gefið til kynna ummerki um stórar forsögulegar skriður þessum stað“, segir Harpa (Veðurstofa Íslands, 2020).

Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir (2020, 19. desember). Sárið eftir stóru skriðuna allt að 200 metrar. Rúv. Sótt af: https://www.ruv.is/frett/2020/12/19/sarid-eftir-storu-skriduna-allt-ad-200-metrar.

Katrín Ásmundsdóttir (dagskrárgerðarmaður). (2020). Hádegið – Aurskriður og jólunum frestað á Bretlandi [útvarpsþáttur]. Ríkisútvarpið. Rás 1. 22. desember. Sótt af: https://www.ruv.is/utvarp/spila/hadegid/30715/94tf60.

Náttúruhamfaratrygging Íslands. (2020). Seyðisfjörður, upplýsingar vegna hamfaranna í desember 2020. Sótt af: https://island.is/seydisfjordur.

Pétur Magnússon (2020, 19. desember). Aldrei mælst meiri úrkoma á Íslandi. Mbl.is. Sótt af: https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/12/19/aldrei_maelst_meiri_urkoma_a_islandi/.

Veðurstofa Íslands. (2020, 22. desember). Stóra skriðan á Seyðisfirði sú stærsta sem fallið hefur á þéttbýli á Íslandi. Sótt af: https://www.vedur.is/um-vi/frettir/stora-skridan-a-seydisfirdi-su-staersta-sem-fallid-hefur-i-byggd-a-islandi.