Heimastjórn Seyðisfjarðar lagði til að fljótt yrði skipaður stýrihópur sem greini stöðu húsnæðismála og uppbyggingu í bænum í kjölfar skriðanna. Þrýsta ætti á yfirvöld að efna loforð sín varðandi aðstoð við uppbyggingu bæjarins. Heimastjórnin óskaði þá eftir því að rannsakað yrði hvernig staðið hafi verið að rýmingum og vinnulag við ákvarðanatökur við óvissu- og hamfaraaðstæður endurskoðaðar.
Hættuleg flækja skapaðist þar sem Veðurstofa Íslands ber ábyrgð á rýmingum vegna snjóflóðahættu en Almannavarnanefnd vegna aurskriðuhættu og kallar stjórnin eftir því að ábyrgðarhlutverk verði endurskoðað og gert skýrara. Áhersla var lögð á að Seyðfirðingar hljóti áframhaldandi áfallahjálp og að skólastarfsfólk hljóti þjálfun í að greina áfallaeinkenni barna. Þá áréttar stjórnin mikilvægi þess að vinna við Fjarðarheiðargöng hefjist sem fyrst en ef Fjarðarheiðin hefði verið ófær daginn sem stóra skriðan féll hefðu bæjarbúar ekki átt aðra greiða flóttaleið á landi. Þá ætti að útbúa upplýsingablað fyrir bæjarbúa um skriðurnar, afleiðingar hennar og framtíðina.
Heimastjórn Seyðisfjarðar. (2021, 11. janúar). 3. fundur [fundargerð]. Sótt af: https://www.mulathing.is/is/stjornsysla/sveitarstjorn-rad-og-stjornir/fundargerdir/heimastjorn-seydisfjardar/43#202012168.