Kristján Torr segir frá, 20. desember

Daginn eftir er orðrómur um opnun svo búrið er sett í bílinn, lyfin í sprautu og keyrum að stað til þess að bíða við afleggjarann. Frétt birtist á Vísi um að fólki verði hleypt inn í fjörðinn. Ég sýni björgunarsveitarmönnum fréttina og krefst inngöngu en þeir hafa ekki heyrt neitt. Almannavarnanefnd greinilega lekur. 15 mín síðar fáum við grænt ljós og keyrum af stað. Ástandið á Seyðisfirði er skuggalegt. Þurrt veður, logn og það eina sem heyrist eru sígeltandi leitarhundar og þyrill dróna á lofti yfir útrýmingunni handan við hornið á Hafnagötunni. Flóðaljós lýsa upp fjallið og vísindamenn frá veðurstofunni ganga hlíðarnar til þess að koma fyrir hlustunarbúnaði sem á að heyra í næstu eyðileggingu sem bíður eftir því að nýlenduvæða fjörðinn. Beint niður í áhaldastöð, rífast við lögreglu og gera þeim grein fyrir að ég sé erfiður einstaklingur og þeir losni ekki við mig fyrr en kisa er hólpinn. En svarið er hart NEI. Það fer enginn inn á svæðið. Þvílík helvítis vonbrigði. Gefum þessu 14 tíma í viðbót ef ekki þá – þá kajak og hjálmur. RÚV kemur auga á mig og tækifæri fyrir mjúka tilfinninga frétt, ég samþykki að sýna smetti á myndavél ef ég get talað um mikilvægi þess að huga að gæludýrum. Viðtalið fer fram og ég kem fram kröfum um að gæludýrabjörgun hljóti forgang og segi svo einhverja helvítis vitleysu. Auðvitað er gæludýraefnið klippt út og vitleysan sýnd í fréttum um kvöldið. Aftur yfir fjallið til Egilstaða og framkvæmi tilraun til að sofa.

Kristjan Torr. (2020, 27. desember). Frásögn og myndir frá Seyðisfirði, birt til að gleyma ekki [stöðuuppfærsla]. Facebook. Sótt af: https://www.facebook.com/KristjanTorr/posts/10158811460578540.