Kristján Torr segir frá, 22. desember

Daginn eftir er létt yfir fólki í aðgerðastöð þar sem þeir eru lausir við erfiða gæludýraeigendur og geta loksins snúið sér að mikilvægum björgunarstörfum þegar ég geng inn og byrja að pexa í þeim, það sé annar köttur, hann sé að drepast og já, það eru líka hænur… Rústbjörgunarbíllinn er á leiðinni yfir og við erum settir á lista. Rauði krossinn útvegar okkur mat fyrir hænsnið, harðfisk, kleinur og skinku (svínaskinku, nokkuð viss um að þetta var ekki kjúklingaskinka 😕 ) Félagi minn teiknar upp nákvæma mynd af hænsakofanum en hann er listamaður og nokkuð fær teiknari. Opna hér, loka hér, hænan fer út hér, haninn býr hér etc. Svo bíðum við og bíðum og það er ljóst að fleiri en við sem eru vongóðir að komast inn á svæðið í dag þar sem nokkur spenna er í loftinu í hjálparstöðinni.

Þegar eftirvæntingin er í hámarki ryðst inn hópur af fjölmiðlafólki og ríkisstjórninn gengur inn í salinn til þess að láta mynda sig með “aumingja fólkinu”. Flestir snúa baki í myndavélar og sumir flýja út bakdyra megin gegnum eldhúsið. Hversu miklum töfum olli þessi heimsókn á ferð fólks inn á hamfarasvæðið til þess að nálgast nauðsynjar fyrir jólin? Viðbragðsaðilar í hamförunum eru fáir vegna veirufjandans og að minnsta kosti 30 manna sveit er úthlutað til þess að líta eftir pólitíkusunum. Við ákveðum að freista gæfunnar og bíða í aðgerðastöð eftir heimild til þess að fara inn á svæðið. Þegar þangað er komið bíða margir íbúar eftir því sama og við; að komast inn á svæðið og ná í nauðsýnilega hluti til þess að geta haldið jól. Ég kem auga á kunningja minn í björgunarsveitinni. Hann ber þess merki um að hafa synt í skriðunni en ég geng samt ákveðið á hann, segi honum að félagi minn þurfi að sinna dýrum í svelti en ekki dauðum hlutum og eigi því forgang inn á svæðið. Raddir á bakvið mig kalla að þau þurfi líka inn á svæðið og ungur björgunarsveitarmaður sem sinnir forgangslistanum horfir í allar nema eina átt.

Örvinglun og skelfing grípur um sig í aðgerðastöðinni þar sem allir tala í einu og hrædd um að komast ekki heim fyrir jólin. Kunningi minn úr björgunarsveitinni bendir mér á tvo menn sem standa afsíðis og segir mér þetta séu rústbjörgunarmenn sem fylgi fólki inn á svæðið. Upplýsingarnar eru nýttar, ég kalla og bendi á okkur og segi þeim að við séum næstir og við séum með skýr plön og markmið, þeir skuli bara skella á okkur flóða gps tækjum og við getum farið af stað STRAX – Þeir sinna kalli mínu og við förum út í bíl og keyrum fram hjá fólkinu sem starir á okkur í örvinglun og mig þetta andskotans fífl sem hafði af þeim ferðina heim, gögnin af harða disknum, gjafirnar og jólin.

Ég vona að þau hafi komist heim fyrir rest og ef ekki, þá er það bara þannig. Inn á hamfarasvæði og festum okkur strax í skriðunni, leysa bílinn, finna slóða og keyra upp á Fossgötu. Leggja bílnum, björgunarsveitarmaðurinn segist ætla biba ef það kemur skriða. OK. Inn í hænsakofa þar sem hænsið kom fljúgandi á móti mér (hænur fljúga?) gefa, gefa, gefa – skilja eftir vatn og svo út í bíl, félagi minn kemur svo á móti mér með mjálmandi búr, Aftur: kisa lifir! Keyra til baka, koma í kisu í skjól, upp á hótel, pakka (í hundraðasta skiptið?), hita bílinn, köttinn í búr og keyra til Egilstaða. Kisa vælir alla leiðina og við erum alltof sein í flugið. Á flugvellinum gefur starfsmaður Isavia mér þær upplýsingar að við getum farið með ef við komum NÚNA! Deyfa kisu, tékka inn búrið, ganga um borð, spenna belti, setja á sig heyrnatólin og skella góðu lagi á. Mér hefur sjaldan svimað jafn mikið í flugtaki.

Kristjan Torr. (2020, 27. desember). Frásögn og myndir frá Seyðisfirði, birt til að gleyma ekki [stöðuuppfærsla]. Facebook. Sótt af: https://www.facebook.com/KristjanTorr/posts/10158811460578540.