Náttúruhamfarir á Íslandi

Náttúruhamfarir hafa haft mikil áhrif á íslenskt samfélag í gegnum aldirnar, líkt og samfélög víðs vegar um heiminn. Í gegnum tíðina hafa Íslendingar þurft að glíma við hamfarir á borð við eldgos, jarðskjálfta, jökulhlaup, snjóflóð, skriðuföll og óveður, svo eitthvað sé talið. Áður fyrr höfðu slíkar hamfarir oft á tíðum gífurleg áhrif á lífsviðurværi þjóðarinnar en í kjölfar tækniframfara og batnandi efnahags á síðustu hundrað árum eða svo hafa líkur á slíkum afleiðingum náttúruhamfara minnkað umtalsvert. Afleiðingar náttúruhamfara eru þó enn miklar þegar þær eiga sér stað, bæði með tilliti til tjóns af þeirra völdum sem og ómetanlegs mannfalls (Tómas Jóhannesson, 2001, 1-2). Eitt grundvallaratriði í viðbúnaði gegn náttúruhamförum er þekking á hættunni sem er til staðar. Hér getur til að mynda þekking á gosbeltum, eldstöðvarkerfum og þvergengjum gefið hugmyndir um hættu á eldgosum og jarðskjálftum, líkt og þekking á sögulegum heimildum um snjóflóð og skriðuföll getur gefið hugmyndir um ofanflóðahættu á ákveðnum svæðum. Með því að nýta rannsóknir á náttúru landsins má meta hættu á náttúruhamförum og hanna út frá þeim leiðbeiningar um nýtingu svæða og gerð mannvirkja á þeim (Tómas Jóhannesson, 2001, 5).

Tómas Jóhannesson. (2001). Náttúruhamfarir á Íslandi. Í María J. Gunnarsdóttir (ritstj.), Orkumenning á Íslandi: grunnur til stefnumótunar: erindi og veggspjöld á Orkuþingi 11.-13. október 2001 (238-246). Sótt af: https://www.vedur.is/gogn/snjoflod/haettumat/orkuthing-2001.pdf.