Ofanflóð

Ofanflóð eru ein gerð náttúruhamfara og fela í sér færslu massa jarðefna niður fjallshlíðar eða brekkur fyrir áhrif þyngdaraflsins. Ofanflóð flokkast annars vegar í snjóflóð og hins vegar í skriðuföll (Náttúrufræðistofnun Íslands, Ofanflóð). Undir hvorum flokki eru nokkrir undirflokkar en Veðurstofa Íslands flokkar ofanflóð í ellefu flokka eftir gerð, efni, vatnsmagni og þéttni þeirra (Veðurstofa Íslands, 2006, 2. nóvember). Þau flóð sem ekki eru snjóflóð af einhverju tagi flokkast sem aurskriður, grjóthrun og berghlaup (Veðurstofa Íslands, 2006, 30. október). Aurskriða er skilgreind sem vatnsblönduð skriða af grjóti og öðrum jarðefnum, grjóthrun er hrun stakra steina úr hlíð en berghlaup er hrun heillar bergfyllu úr hlíð (Veðurstofa Íslands, 2006, 2. nóvember).

Heimildir eru fyrir því að alls hafi 208 manns farist af völdum ofanflóða á 20. öld (Náttúrufræðistofnun Íslands, Ofanflóð). Eftir að snjóflóð féllu á Neskaupsstað árið 1974 var ráðist í úttekt á snjóflóðahættu víða um land. Sú vinna leiddi þó ekki til mikilla breytinga á viðbúnaði við ofanflóðum, hvorki þegar kom að gerð hættumats né skipulagi byggðar á hættusvæðum (Tómas Jóhannesson og Þorsteinn Arnalds, 2001, 481). Afstaða Íslendinga til ofanflóða og varna gegn þeim tók hins vegar miklum breytingum eftir mannskæðu snjóflóðin á Flateyri og Súðavík sem féllu árið 1995 (Tómas Jóhannesson og Þorsteinn Arnalds, 2001, 474). Ofanflóðasjóður var styrktur verulega í kjölfarið en meðal hlutverka hans er að fjármagna að stórum hluta varnarvirki og uppkaup bygginga á hættusvæðum. Veðurstofunni var jafnframt falið það hlutverk að meta snjóflóðahættu á Íslandi. Nýjar reglur um hættumat vegna ofanflóða voru settar árið 2000 og þrenns konar hættusvæði, A, B og C, voru skilgreind en þau byggja á árlegum dánarlíkum einstaklinga sem á þeim dvelja. Ákveðnar reglur voru settar á notkun og styrkingu þeirra bygginga sem staðsettar eru á hættusvæðum og gerð sú krafa að ný byggð sé einungis skipulögð utan þessara svæða. Hörðustu reglurnar gilda um svæði C en á þeim má ekki reisa byggingar þar sem búist er við stöðugri viðveru fólks (Tómas Jóhannesson og Þorsteinn Arnalds, 2001, 480-483).

Náttúrufræðistofnun Íslands. Ofanflóð. Sótt af: https://www.ni.is/jord/natturuva/ofanflod.

Veðurstofa Íslands. (2006, 2. nóvember). Flokkun ofanflóða. Sótt af: https://www.vedur.is/ofanflod/frodleikur/greinar/nr/384.

Veðurstofa Íslands. (2006, 30. október). Helstu hugtök við skráningu ofanflóða. Sótt af: https://www.vedur.is/ofanflod/frodleikur/greinar/nr/378.

Tómas Jóhannesson og Þorsteinn Arnalds. (2001). Slys og tjón af völdum snjóflóða og skriðufalla. Sveitarstjórnarmál, 61(6). Sótt af: https://www.vedur.is/gogn/snjoflod/haettumat/sveitarstjornarmal-2001.pdf.