Skriðuföll

Skriðuföll falla allt árið um kring en eru algengust á haustin og á vorin. Ástæðuna má rekja til þess að hættan á stórfelldri rigningu er mest á haustin en á vorin eiga leysingar sér stað. Jafnframt eru skriðuföll sjaldgæfust síðari hluta vetrar, sérstaklega ef frost er í jörðu. Aftur á móti er algengast að snjóflóð falli að vetri til og ná þau hámarki sínu frá janúar til mars (Ólafur Jónsson, 1992, 43) . Skriðuföll eru algeng á Íslandi og orsakast það meðal annars af veðurfari, berggerðar, eyðingu gróðurs og jarðvegs utan á hlíðum og því hvernig landið liggur (Náttúrufræðistofnun Íslands, Skriðuföll). Skriður geta fallið alls staðar þar sem brekkur eru og falla því víðs vegar um landið. Ekki er alltaf augljóst hvað veldur skriðum en ástæðurnar geta verið margvíslegar. Gil og fjallshlíðar geta jafnvel verið það óstöðugar að ekki þarf nema smávægilega rigningu eða hitabreytingu til að koma skriðum af stað (Jón Kristinn Helgason og Harpa Grímsdóttir, 2014). Skriðuföll flokkast í grjóthrun, jarðvegsskriður, berghrun, berghlaup, hægfara sig á efnisflykkjum og aurskriður. Efnið sem flyst niður með þeim getur verið jarðvegur, urð eða stykki úr berggrunni. Aur- og jarðvegsskriður falla oft á tíðum úr farvegum í fjallshlíðum. Þrátt fyrir að ástæður skriðufalla geti verið margvíslegar þá orsakast meirihluti skriðufalla á Íslandi af mikilli úrkomu eða asahláku (Náttúrufræðistofnun Íslands, Skriðuföll). Þegar jarðvegur er mjög þurr þá gleypir hann alla úrkomu í sig. Við hraða og mikla úrkomu nær vatnið ekki að seytla í gegnum jarðveginn og leita eðlilegra farvega og leitar því þess í stað niður að föstu bergi undir yfirmettuðum jarðveginum, gerir það vott og sleypt og seytlar eftir því (Ólafur Jónsson, 1992, 75). Talið er að á 20. öld hafi samtals 42 manns látið lífið vegna skriðufalla og að minnsta kosti 59 til viðbótar hafi slasast. Til samanburðar má nefna að á sama tímabili létust 166 manns í snjóflóðum (Náttúrufræðistofnun Íslands, Ofanflóð).

Ólafur Jónsson. (1992). Skriðuföll og snjóflóð (1. bindi, 2. útgáfa). Reykjavík: Bókaútgáfan Skjaldborg.

Náttúrufræðistofnun Íslands. Skriðuföll. Sótt af: https://www.ni.is/jord/jardgrunnur/skridufoll.

Náttúrufræðistofnun Íslands. Ofanflóð. Sótt af: https://www.ni.is/jord/natturuva/ofanflod.

Jón Kristinn Helgason og Harpa Grímsdóttir. (2014, 3. júní). Um skriðuföll. Veðurstofa Íslands. Sótt af: https://www.vedur.is/ofanflod/frodleikur/greinar/nr/2901.