Söfn og heilsa

Heilsa er margþætt og oft eru áhrifin langvarandi þegar hún bregst, hvort sem er um andlega, geðræna eða líkamlega heilsu er um að ræða. Undanfarin ár og áratugi hafa söfn verið að beit sér sem miðli fyrir fólk til að koma saman og deila sameiginlegri reynslu af atburðum. Söfn hafa ávallt miðlað þekkingu sinni en undanfarin ár hafa þau einnig orðið samfélagsleg svæði og rými þar sem fólk getur unnið í andlegri og líkamlegri heilsu (Brennan, 2020). Dodd og Jones benda á að fólk sem er eldra þarf að halda sér líkamlega og félagslega virku, virkja andlega heilsu og halda sér sjálfstæðu  því annars gæti það haft alvarleg áhrif á einstaklinga (Dodd & Jones, 2014, bls. 15). Sama regla gildir í raun fyrir alla en þeir sem er í hættu að einangrast félagslega vegna aldurs og/eða andlegra/líkamlegra veikinda eru sérstaklega viðkvæm. Sýnt hefur verið fram á að léleg félagsleg heilsa einstaklinga getur haft neikvæð áhrif á líkamlega heilsu þeirra. 
Seyðisfjörður er ekki stór, rétt um 700 íbúar þannig líkurnar á félagslegri einangrun er töluvert minni en það væri í stærri bygð. Oft er það að minni samfélög standa þéttar saman, enda þekkja allir alla. En þó er vettvangur fyrir safnið að koma til móts við íbúana. Þótt safnið sé heimilislaust eins og er, er safnið ekki bara húsnæðið eða munirnir. Söfn eru ekki frístandandi stofnanir sem einungis miðla þekkingu heldur taka líka inn á sig nýja hluti, nýjar aðferðir og verkferla og þróast í takt við samfélagið sem það stendur í og gestina sem þau sækja. 
Þannig getur Tækniminjasafnið komið á móts við þá sem hafa áhuga á að deila sinni sögu varðandi skriðuna og eftirmálin, með því að veita þeim pláss til að miðla reynslunni og skapað áframhaldandi aðferðir sem nýst gætu í öðrum dæmum þar sem áföll hafa orðið. Það getur einnig orðið miðill efnis er kemur að hnattrænni hlýnun, því með breyttu veðurfari munu skriður eins og þessi verða algengari (eins og sjá mátti í byrjun sumars 2021).  

Brennan, S. (2020). Museums as Change Agents: Supporting the Chronic Illness Community. Theory and Practice, Vol. 3. Sótt 27. júlí af https://articles.themuseumscholar.org/2020/06/05/tp_vol3_brennan/ .

Dodd, J. (2002). „Museums and the health of the community.“ Í Museums, Society, Inequality, bls. 182-189.