Tveir af hverjum þremur geta snúið heim

Hjónin Guðjón Harðarson og Hrönn Ólafsdóttir voru meðal þeirra fyrstu sem fengu að snúa aftur heim til sín í kjölfar rýminganna á Seyðisfirði. Þau segja að einstaklega vel hafa verið tekið á móti þeim sem þurftu að yfirgefa heimili sín á föstudaginn.

„Ég er glöð að vera komin heim en samt svolítið stressuð, ég viðurkenni það. Það skiptir mestu máli að enginn slasaðist. Allt hitt má bæta finnst mér,“ segir Hrönn. „Ég fékk veður af rýmingunni örstuttu áður en okkur var sagt að koma niður í Herðubreið. Ég stóð og snérist í kringum sjálfa mig í fimm mínútur þar til dóttir mín kom heim. Ég spurði hana hvað ég ætti að taka með mér og hún sagði mér að taka tannburstann og hlýja peysu. Ég dró fyrir gluggana og fór,“ bætir hún við. Barnabörnin þeirra voru spennt en yfirveguð fyrir hraðferðinni yfir Heiðina.

„Það var enginn grátur eða neitt. Þegar maður keyrði út úr bænum og horfði í spegilinn hugsaði maður hvað myndi gerast. Þær hugsanir róuðust á leiðinni og gleymdust í smá stund uppi á Héraði.“ Þau fjölskyldan, alls 12 manns fengu inni á Hótel Valaskjálf á Egilsstöðum. „Hálftíma eftir að við fórum vorum við komin með herbergi þar. Ég ætlaði að borga þegar við fórum. Mér var sagt að hér yrði ekkert borgað og óskað góðrar ferðar heim. Hver borgar verður að koma í ljós. Alls staðar mættum við hlýju viðmóti. Það var ofboðslega vel tekið á móti okkur.“

Heimferðin gekk vel, enda höfðu þau ekki haft mikinn farangur með sér. „Ég kvíði fyrir að horfa á þetta. Þetta gerðist nánast í myrkri og við sáum ekkert. Ég vil ekki fara núna í kvöld,“ segir Hrönn sem er fædd og uppalin á Seyðisfirði. Þau hafa trú á að Seyðfirðingar snúi aftur heim. „Við ætlum að standa saman og byggja upp aftur,“ segir Hrönn. „Fólk er bjartsýnt á að þurfa ekki að fara aftur að heiman um jólin. Ég held samt að ef annað áfall kæmi yfir þá myndi það setja strik í reikninginn hjá mörgum,“ bætir Guðjón við. „Við stólum á stjórnmálamennina okkar. Þeir hafa þegar gefið einhverjar yfirlýsingar, við höfum heyrt af þeim áður en ég held að í svona áföllum sé staðið við þær,“ segja þau en ítreka þó að nú skipti máli fyrir samfélagið að taka þétt utan um hvort annað og standa saman.

Gunnar Gunnarsson. (2020, 20. desember). Gleymum ekki móttökunum sem við fengum. Austurfrétt. Sótt af: https://www.austurfrett.is/frettir/gleymum-ekki-mottoekunum-sem-vidh-fengum.