Viðbrögð og fyrirbyggjandi aðferðir safna

Mikilvægt er að bregðast við hættunni sem steðjar að menningararfi vegna loftslagsbreytinga og aukinnar tíðni náttúruhamfara vegna þeirra. Finna þarf gagnlegar aðferðir til varðveislu minja og innleiða breytingar innan forstöðu menningarverðmæta svo hægt sé að aðlaga stefnur að mögulegum áhrifum loftslagsbreytinga og skaðaminnkunar vegna þeirra. Til þessa þarf að leggja frekari áherslu á að fylgjast með og rannsaka áhrif ýmissa þátta á menningararf, svo sem loftslagbreytinga, í stjórnun og starfsháttum. Hægt er að gera það með því að fylgjast með veðurfari og áhrifum þess á ákveðnum svæðum og taka upp fyrirbyggjandi aðferðir og úrbætur á þeim svæðum sem um ræðir. Þetta kallar á hugarfarsbreytingu um hvernig menningarminjar eru varðveittar. Að mati Jigyasu (2019) er tíminn fyrir aðgerðarleysi í varðveislu menningararfs og stjórnun hans á þrotum og nauðsynlegt er að bregðast við. Ekki er nóg að takast á við afleiðingar náttúruhamfara og eyðileggingu menningarminja eftir að þær gerast heldur þarf athyglin að færast á fyrirbyggjandi aðferðir, undirbúning og skaðaminnkun (Jigyasu, 2019, 97-98). Svo hægt sé að þróa aðferðir til að draga úr þeirri hættu sem steðjar að menningararfi og forgangsraða þeim aðgerðum sem ráðast þarf í er nauðsynlegt að bera kennsl á og meta áhrif loftslagsbreytinga á menningararf með því að greina starfshætti og þær aðstæður sem arfurinn býr við áður en hamfarir eiga sér stað. Gera þarf ráðstafanir varðandi neyðarviðbrögð og viðbúnað vegna hamfara (García, 2019, 109). Þróa þarf sviðsmyndir af þeirri hættu sem steðjar að og yfirgripsmikla gagnagrunna yfir eyðileggingu menningararfs sökum náttúruhamfara. Viðeigandi stefnur þarf að þróa og er samstarf ýmissa stofnana og annarra viðkomandi aðila nauðsynlegt (Jigyasu, 2019, 98). Lykillinn að verndun menningararfs frá afleiðingum loftslagsbreytinga og náttúruhamförum almennt er sá að öðlast skilning á hættunni sem er til staðar (García, 2019, 111).

Mælt er með að sérfræðingar á sviði menningarminja komi strax að málum í kjölfar hamfara og meti þann skaða sem orðið hefur svo hægt sé að nýta þau gögn í áætlunum um endurreisn minjanna. Meta þarf hvers kyns aðferðum ætti að beita svo menningarlegum gildum arfsins sé ekki raskað, svo sem hvort eigi að gera við minjarnar, endurbyggja þær eða fara aðrar leiðir. Við endurreisn menningararfs þarf einnig að hafa samfélagsleg sjónarhorn í huga og að hún þjóni því samfélagi sem gerir tilkall til arfsins og aðstoði við að koma þeirra daglega lífi í samt horf. Auk þess þarf að endurmeta stöðu arfsins og svæðið sem hann er á út frá ólíkum sjónarmiðum eftir hamfarirnar til þess að safna nýjum gögnum fyrir þróun nýrra aðferða til verndunar hans. Þá ætti endurreisn menningararfs í kjölfar náttúruhamfara að fela í sér endurbætur í stað þess að farið sé í sama horf og áður (García, 2019, 109-110).

García, Bárbara Mínguez. 2019. Resilient cultural heritage for a future of climate change. Journal of International Affairs, 73, (1), 101-120.

Jigyasu, Rohit. 2019. Managing cultural heritage in the face of climate change. Journal of International Affairs, 73, (1), 87-100.