„Tækniminjasafn Austurlands – Framtíð og stefna“

Tveggja daga vinnustofur voru haldnar í Herðubreið varðandi framtíð Tækniminjasafns Austurlands. Vinnustofurnar sóttu einstaklingar tengdir Tækniminjasafninu, starfsmenn safnsins, stjórnarmeðlimir og sérfræðingar. Eftirfarandi eru lýsingar fjögurra viðmælenda á smiðjunum:

Elsa Guðný, forstöðumaður Minjasafns Austurlands, tók þátt í vinnustofum. Hún segir tilgang þeirra hafa verið að stíga næstu skref í átt að framtíðarmöguleikum safnsins, leggja drög að framtíðarsýn um þætti eins og hvar safnið ætti að rísa, hverjir séu fjármögnunarmöguleikar og hvaða áherslur starfið ætti að hafa. Elsa upplifir að vinnustofurnar hafi gengið mjög vel og að þær aðferðir sem var beitt til að koma fram hugmyndum hafi gengið mjög vel. Aðspurð segist Elsa ekki vita alveg hvað muni verða um þau gögn sem urðu til í vinnustofunum en að þau ættu að henta þeim sem eru að vinna að stefnumörkun safnsins, líklegast Austurbrú og starfsfólki Tækniminjasafnsins. Hún minnist á að svo fari líklegast skýrsla til einhverra yfirvalda sem gætu hjálpað til við að byggja safnið að nýju. Hún minnist á að þetta snúist auðvitað líka um peninga og fleira. Elsa segir vinnustofurnar hafa verið eins konar fyrsta skref.

Elfa Hlín Sigrúnar Pétursdóttir, starfsmaður Tækniminjasafnsins og meðal skipuleggjenda vinnustofanna útskýrir að litið var til mismunandi þátta í vinnustofunum á borð við hver er gesturinn og hvaða aðstöðu safnið þarf að hafa.

Lilja Árnadóttir, fyrrum sviðsstjóri munasafns Þjóðminjasafns Íslands, segist hafa mætt í ýmsar vinnusmiðjur gegn um tíðina og að þær fari oft „út um hitt eyrað“ en að í þessum smiðjum hafi hún upplifað að það væri verið að virkja fólk, góða þátttöku og samræður. Hún minnist á að það ætti alla vega að vera úr nægu að taka hér og að þetta efni ætti að nýtast vel í næstu skref.

Aðspurð segir Jónína Brynjólfsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, afrakstur vinnustofanna vera að ákveðinn grunnur fyrir ákvarðanatöku hafi verið myndaður, að niðurstöðurnar verði teknar í sundur og beitt á ólíkum sviðum. Hún útskýrir að það verði fleiri vinnustofur og að það verði mikilvægt að öllum lítist á hvert safnið er að fara og hvernig safnið verði. Hún útskýrir að vinnustofurnar hafi nú þegar átt að eiga sér stað, enda var stefnumótunarvinna komin af stað áður en skriðurnar féllu. Munurinn er að í stað þess að hugsa um hvernig sýningar ættu að vera í rýmunum þurfti nú að hugsa um hvernig rýmin ættu að vera sem myndu hýsa sýningarnar.

Viðtal Báru Bjarnadóttur við Elsu Guðnýju Björgvinsdóttur 14. júlí 2021. Í vörslu ábyrgðarmanns verkefnis.

Viðtal Báru Bjarnadóttur við Lilju Árnadóttur 23. júlí 2021. Í vörslu ábyrgðarmanns verkefnis.

Viðtal Báru Bjarnadóttur við Jónínu Brynjólfsdóttur 9. ágúst 2021. Í vörslu ábyrgðarmanns verkefnis.

Viðtal Báru Bjarnadóttur við Elfu Hlín Sigrúnar Pétursdóttur 20. júlí 2021. Í vörslu ábyrgðarmanns verkefnis.