Eftir náttúruhamfarirnar stendur safnið á miklum tímamótum og margþætt og krefjandi verkefni eru fram undan. Bæði þarf að tryggja uppbyggingu á nýju safni, sem og að tryggja að rekstur safnsins verði sjálfbær að uppbyggingu lokinni. Í því skyni var nauðsynlegt að gera viðskiptaáætlun þarf sem reynt væri að gera grein fyrir mögulegum kostnaði við nýja grunnsýningu nýs safns og rekstrargrundvellinum í framtíðinni. Leitað var til Háskólans á Bifröst um mögulegt samstarf og nemandi í menningarstjórnun, Heimir Freyr Hlöðversson, vann áætlunina í samstarfi við safnstjóra, sem hluta af sínu námi. Uppbyggingarsjóður Austurlands styrkti safnið svo hægt væri að ráðast í þessa vinnu.
Í áætluninni kemur fram að í dag kemur stærstur hluti tekna safnsins úr opinberum sjóðum en ef áætlanir um gestafjölda ganga eftir, þar sem horft er sérstaklega til farþega skemmtiferðaskipa sem leggjast að bryggju á Seyðisfirði, má gera ráð fyrir að eftir nokkur ár muni a.m.k. helmingur af tekjum koma í formi aðgangseyris.
Kostnaður við nýja grunnsýningu er áætlaður tæpar 150 milljónir króna og rekstrartekjur á ári verði í kringum 70 milljónir króna. Rekstrargjöld verða eitthvað lægri, þegar miðað er við að á safninu verði 3 föst stöðugildi auk sumarstarfsfólks.
Að sjálfsögðu er hér um áætlun að ræða með þón okkra óvissuþætti, ekki síst hvenær uppbyggingu á nýju safnasvæði, endurbyggingu Angró og öðrum byggingarframkvæmdum, verði lokið svo hægt verði að setja upp nýjar sýningar og opna safnið fyrir gestum.
Í áætluninni sést þó vel að tækifærin eru vissulega til staðar, nú er bara að grípa þau.