Saga Seyðisfjarðar

Seyðisfjörður – vagga tækninnar

Tækniminjasafnið er staðsett á Seyðisfirði, í tæplega 700 manna bæ umluktum háum og bröttum fjöllum. Á örfáum áratugum í kringum aldamótin 1900 breyttist Seyðisfjörður úr fámennu og frekar stöðnuðu bændasamfélagi í fjölþjóðlegan bæ með fjölbreyttu og tæknivæddu atvinnulífi sem leiddi til mikilla samfélagsbreytinga.  

 Landnámsmaðurinn Bjólfur er sagður hafa numið þar land og byggt sinn bæ í Firði. Í árhundruð þar á eftir voru í Seyðisfirði nokkrir sveitarbæir hér og þar um fjörðinn og íbúafjöldi mest tæplega 200 manns. Þéttbýli tók ekki að myndast fyrr en á síðustu áratugum 19. aldarinnar fyrir botni fjarðarins og á aðeins 30 árum, frá 1880 til 1910, varð íbúatalan í kringum eitt þúsund Þessi hraða þéttbýlismyndun kom að miklu leyti til vegna síldveiða og umsvifa Norðmanna, m.a. athafnamannsins Otto Wathne. Á örskotsstundu varð til lítill alþjóðlegur bær með mörg einkenni borgaralegs samfélags. Fjölbreytni starfa jókst, húsum, stórum sem smáum, fjölgaði ört og ljósmyndastofur, prentsmiðjur, skóvinnustofur, vélsmiðja, verslanir og matsölur voru starfræktar. Þá höfðu embættismenn þar aðsetur og spítali var byggður árið 1900.  

Helstu tækninýjungar og viðfangefni safnsins hafa verið annars vegar tilkoma ritsímans, vélvæðing og vélsmíði, prentiðn, blaðaútgáfa og ljósmyndun og hins vegar þær samfélagsbreytingar sem urðu í kjölfarið.  

Ísland tengist umheiminum

Árið 1906 tengdist Ísland umheiminum með ritsímastreng frá Skotlandi um Færeyjar og Hjaltlandseyjar. Strengurinn var tekinn á land á Seyðisfirði og reis þar fyrsta ritsímastöð landsins, í glæsilegu húsi sem Otto Wathne hafði látið reisa fyrir sig og fjölskyldu sína árið 1894. Árið 1913 var fyrsta riðstraumsvirkjun landsins tekin í notkun sem sá bænum fyrir rafmagni og lýsingu. 

 

Helstu atvinnuvegir tuttugustu aldarinnar voru sjávarútvegur og iðnaður, auk þjónustu og verslunar. Síðustu hundrað árin hafa einkennst af talsverðum sveiflum í atvinnulífi og efnahag bæjarins, kreppan mikla á þriðja áratugnum hafði mikil áhrif og á hernámsárunum voru hér mest um 2000 hermenn í 260 skálum, með öllu því róti og umsvifum sem því fylgdi. Sjöundi áratugurinn sem kenndur er við síldarárinn einkenndist af miklum uppgangi en árið 1969 hvarf síldin og olli það miklum búsifjum. Síðustu áratugir 20. aldarinnar voru erfiðir með breytingum í

Síðustu ár

Á síðustu árum hefur ferðaþjónustu vaxið fiskur um hrygg auk þess sem blómlegt menningarlíf einkennir seyðfirskt samfélag og atvinnulíf.  Fjöldi skemmtiferðaskipa heimsækir fjörðinn árlega, farþegaferjan norræna siglir vikulega þangað árið um kring og regnbogagatan er einn mest myndaði staðurinn á Austurlandi. Fyrirtækjum í ferðaþjónustu hefur fjölgað þó að eldri atvinnugreinar s.s. sjávarútvegur og heilbrigðisþjónusta spila enn lykilhlutverk.  

Árið 2020 sameinaðist bærinn þremur öðrum sveitarfélögum á Austurlandi, Djúpavogi, Borgarfirði eystra og Fljótsdalshéraði. Hið nýja, víðfeðma sveitarfélag fékk nafnið Múlaþing. Fyrirhugað er að grafa göng undir Fjarðarheiðina og bæta þar með mjög erfiðar samgöngur til og frá Seyðisfirði sem munu, þegar þau verða tilbúin eftir nokkur ár, hafa margvísleg breytingaráhrif sem fróðlegt verður að fylgjast með. 

 

Upplýsingar/Information

Hafnargata 44, 710 Seyðisfjörður, Ísland/Iceland

Hafa samband/Contact

+354 4721696

tekmus@tekmus.is

Frjáls framlög/Donations

Kt. 440203-2560, Account:0133-15-000450

Foreign donations: IBAN: IS950133 1500 0450 4402 0325 60

SWIFT (BIC): NBIIISRE