Tilkynnt var í gær að safnið fengi tvo styrki úr Uppbyggingarsjóði Austurlands á árinu 2024. Annars vegar fyrir gerð sýningu í útigalleríinu á Lónsleiru sem opnuð verður í tengslum við kvenna- og kynjasöguþing sem haldið verður beggja vegna Fjarðarheiðar í júní 2024. Efnistök sýningarinnar eru ekki ákveðin en markmið hennar verður þó að draga fram þætti úr sögu kvenna á Seyðisfirði sem lítið hefur verið haldið á lofti hingað til. Hinn styrkurinn er vegna samstarfsverkefnis safnsins og Menntaskólans á Egilsstöðum um fræðsluverkefni þar sem nemendur munu vinna með gripi sem grisjaðir hafa verið úr safnkosti og skoða leiðir til að gefa þeim framhaldslíf, mögulegu með breyttu hlutverki.
Við þökkum kærlega fyrir styrkina. Starf og verkefni safnsins, sem og annarra svipaðra menningarstofnana, byggist á að hægt sé að fá styrki til að ráðast í sérstök verkefni, utan hins daglega reksturs.