List í ljósi er listahátíð á Seyðisfirði sem haldin er árlega í febrúar til að fagna endurkomu sólarinnar til fjarðarins eftir fjögurra mánaða fjarveru. Slökkt er á útiljósum í bænum svo fjöldi ljóslistaverka sem sett eru upp víðs vegar um bæinn njóti sín sem best.
Tækniminjasafnið tók í fyrsta sinn þátt í hátíðinni árið 2022 með verkinu Verði ljós. Orka í vatni var beisluð með túrbínu sem knúði rafal sem breytti henni í rafstraum sem tendraði ljós.
Listaverkið var samstarfsverkefni starfsmanna safnsins og innblásið af sögulegum staðreyndum. Jóhann Hansson sem stofnaði Vjelsmiðju Seyðisfjarðar gerði slíkt hið sama árið 1909.
Þá beislaði hann orkuna í læknum fyrir ofan vjelsmiðjuhúsið sem var nýtt til að drífa reimabeltið innandyra.
Segir sagan að rafmagnið hafi einnig verið notað til að lýsa upp fyrsta rafljós bæjarins og að unga fólkið hafi gert sér sérferð út á Búðareyrina til að sjá þessa nýjung með eigin augum.
Elsti hluti Vjelsmiðjunnar, reimadrifið og fyrsta túrbínan eyðulögðust öll, ásamt fjölda annarra safngripa, í skriðuföllunum á Seyðisfirði í desember 2020.