Fyrstu vikurnar eftir skriðu fóru í munabjörgun með dyggri aðstoð vinnuflokks á vegum Múlaþings og sérfræðinga í forvörslu og safnastarfi. Farið var í gegnum rústir húsanna og það sem ekki var gjörónýtt var sett í fiskikör og þaðan flutt í mjölgeymslu Síldarvinnslunnar. Við fengum mikla hjálp frá safnasamfélaginu við þessa vinnu. Flokkar sérfræðinga frá Þjóðminjasafni, Borgarsögusafninu og Safnaráði auk austfirsks safnafólks komu í margar ferðir austur til að koma á lágmarksskipulagi á það sem grafið var upp úr skriðunum. Taka þurfti ákvarðanir um hvað væri hægt að geyma og hvað ekki, og forða hlutum frá frekari skemmdum ef hægt var.
Tekið var á leigu óupphitað húsnæði til bráðabirgða utar í firðinum sem nýtist sem varðveisluhúsnæði, Þar eru þeir gripir sem grafnir voru upp úr skriðunni og hægt var að bjarga. Auk þess var bryggjuhúsið Angró og skemma áföst því, sem urðu fyrir minni skemmdum, tæmd, en ekki þótti forsvaranlegt að geyma menningarminjar áfram á þessu svæði við þá miklu skriðuhættu sem þar er.
Héraðsskjalasafn Austfirðinga og Þjóðskjalasafn Íslands hafa tekið við skjölum sem varðveitt voru á Tækniminjasafninu sem og ljósmyndum.
Í allri þessari vinnu hefur farið fram talsverð grisjun á safnkostinum sem var nauðsynleg fyrir skriðuföllin. Mikið verk er framundan við frekari grisjun, skráningu og skipulagningu safnkostsins, en það byggist á því að safnið finni varðveisluhúsnæði til framtíðar sem uppfyllir a.m.k. lágmarksskilyrði um öryggi og aðstæður.