Safnið er í dag húsnæðislaust og vinna er í gangi við að finna á því framtíðarlausnir. Við höfum komið okkur upp skrifstofu á efri hæð Gömlu símstöðvarinnar.
Sveitarfélagið Múlaþing skipaði ráðgjafanefnd sem kom með tillögur um ráðstafanir vegna húsa á og nærri skriðusvæðinu utan Búðarár þar sem húsnæðismál Tækniminjasafnsins voru einnig til umfjöllunar. Hugmyndir eru um flutning húsa og uppbyggingu á tilteknu svæði í bæjarlandinu en ekkert er fast í hendi ennþá.
Viðurkenndu söfnin fjögur á Austurlandi, ásamt Héraðsskjalasafni Austfirðinga, sendu nýlega inn umsókn í Uppbyggingarsjóð Austurlands um forkönnun og greiningu á að byggt yrði sameiginlegt varðveisluhúsnæði fyrir fjórðunginn, húsnæði sem uppfyllti þau skilyrði sem viðurkenndum söfnum ber að fara eftir og yrði vettvangur faglegs starfs og rannsókna á menningararfinum.

