Frá örsýningu Tækniminjasafnsins á Haustroða á Seyðisfirði í byrjun október 2024.
Um sýninguna
Örsýningin „Mörg muna eftir Jósef á hjólinu“ var sett upp á Haustroða í Herðubreið á Seyðisfirði í október 2024. Sýningin var sett upp til minningar um Jósef Niederberger sem var tíður gestur á Íslandi og eyddi töluverðum tíma á norðaustur horninu og eignaðist marga góða vini hér sem hann hélt góðu sambandi við.
Josef Niederberger ferðaðist um Ísland á hjólinu sínu í alls 23 sumur og var þjóðkunnur ferðalangur. Josef var frá Sviss rétt eins og svissneska póstburðarhjólið hans sem er árgerð 1964. Hjólið reyndist honum vel og hann tók það sérstaklega fram að aldrei hefði sprungið hjá honum dekk í þessum ferðum, hvað þá orðið loftlaust.
Þau ár sem hann ferðaðist á hjólinu gisti hann alltaf í litlu rauðu tjaldi og mátti sjá það einhversstaðar út í móa, við ár eða mela og oft dvaldi hann dögum eða vikum saman á sama stað.
Josef var mikið náttúrubarn og naut þess litla jafnt sem hins stóra í náttúrunni. Fuglasöngur, lækjarniður, blómaangan og sólarupprásin,
allt var honum til ánægju og yndisauka. Hann teiknaði jafnan upplifun sína í skærum litum og voru teikningar hans sannkölluð listaverk í anda gömlu náttúrulistamannana.
Honum fannst fátt betra en íslenska vatnið og sagði að það væri einstaklega gott til lögunar á góðu Bragakaffi. Aðspurður hvernig það kom til að hann heimsótti Ísland í upphafi má rekja til bókarinnar Nonni og Manni eftir Jón Sveinsson:
Eftir lestur þeirrar bókar var ég hugfanginn af landinu ykkar. Þegar ég fékk svo árs leyfi 1981 var komið tækifæri til að heimsækja norðlægu eyjuna ykkar. Ég ætlaði að dvelja í þrjár vikur en það urðu þrír mánuðir. Ég var gjörsamlega heillaður af kröftugri en hreinni náttúru Íslands. Mér fannst hún svo ósnortin og gestrisnin ótæmandi.
Árið 2007 gaf Skúli Ragnarsson bóndi á Ytra- Álandi í Þistilfirði honum gamlan Suzuki jeppa með skráningarnúmerinu H-201 sem leysti gula hjólið og rauða tjaldið af hólmi. Jósef breytti jeppanum í pínulítinn húsbíl þar sem hver einasti rúmsentimeter var nýttur. Í honum var svefnpláss fyrir einn, eldunaraðstaða og skrifstofa.
Hjólinu ánafnaði Josef Tækniminjasafni Austurlands í septemberlok 2007 þegar húsbíllinn var kominn í gagnið.
Fólki þótti mjög vænt um bréfin og póstkortin sem Josef sendi þeim og eru mörg þeirra varðveitt.
Josef Niederberger lést þann 10. ágúst 2024.
Sýningarstjórn og textagerð: Elfa Hlín Sigrúnar, Pétursdóttir
Hönnun sýningar og ljósmyndir: Ingvi Örn Þorsteinsson
Munir: Haraldur Björn Halldórsson