Tækniminjasafninu var boðið að taka þátt í ráðstefnu sem haldin var í Svíþjóð dagana 11. og 12. júní 2024 og bar yfirskriftina Cultural Heritage and Cultural Resilience – Nordic-Baltic Conference on Civil Preparedness. Þar kom saman fólk af Norðurlöndum og Eystrasaltslöndunum, bæði úr menningargeiranum og fulltrúar viðbragðsaðila, og deildi þekkingu sinni og reynslu í því skyni að efla forvarnir og viðbrögð við hættuástandi og vá og styrkja samstarf á þessu sviði.
Fyrirlesarar og viðfangsefni þeirra voru úr ýmsum áttum og dagskráin mjög þétt. Erindin fjölluðu meðal annars um störf listamanna við erfiðar og hættulegar aðstæður, mikilvægi viðbragðsáætlana, hvernig upplýsingaóreiða og markviss eyðilegging menningararfs er notuð í hernaði, hvernig aukin ógn úr austri hefur áhrif á Eystrasalts- og Norðurlöndin á mismunandi hátt og reynslusögur frá mismunandi aðilum um bæði viðbragð, ógn og fyrirbyggjandi aðgerðir.
Elfa Hlín sagði frá reynslu, viðbrögðum og samstarfi í tengslum við aurskriðuna sem olli mikilli eyðileggingu á safnkosti og fasteignum Tækniminjasafnsins í desember 2020.
Ráðstefnan var mjög fróðleg, hugvekjandi og á stundum óþægileg sem gerir enn skýrari mikilvægi þess að til staðar séu viðbragðsáætlanir, skýrir ferlar, virkt samstarf við ólíka aðila innan og utan menningargeirans og það hversu viðsjárverðir tímarnir eru. Ekki síður mikilvægi þess að menningararfur og -minjar séu skilgreindar sem mikilvæg grunnstoð samfélaga sem verður að standa vörð um.
Finna má upptökur af fyrirlestrum og meiri fróðleik hér: https://www.raa.se/in-english/events-seminars-and-cultural-experiences/nordic-baltic-conference-2024/ .