Myndin var unnin af dr. Sigríði Matthíasdóttur, Jóni Pálssyni og Söndru Ólafsdóttur fyrir Tækniminjasafnið árið 2020.

MORSE, RITSÍMI, LOFTSKEYTI OG TALSÍMI – HVER ER EIGINLEGA MUNURINN?

Nútímamanneskjan er sítengd og upplýsingarnar flæða til okkar úr öllum áttum í gegnum snjallsímann sem aldrei er langt undan! En það eru rétt 118 ár síðan Ísland tengdist umheiminum þegar ritsímastrengur frá Bretlandseyjum var tekinn á land hér á Seyðisfirði. Það þýddi að hægt var að senda stutt skeyti milli landa sem símritarar tóku við, umrituðu morse kóðann í læsileg skilaboð og sendlar sentust svo með skeytin á réttan stað. Fréttir og skilaboð tóku mun styttri tíma að berast en áður þegar þurfti að reiða sig á skipaferðir milli landa.

Símstöðin var rekin um árabil á Seyðisfirði, starfsemi hennar tók eðlilega breytingum með nýrri og breyttri tækni s.s. talsíma og loftskeytasendingum. Í heimildarmyndinni Seyðisfjörður kallar upp! segja þau Sigríður Stefánsdóttir og Jóhann Grétar Einarsson frá störfum sínum á Stöðinni og veita innsýn inn í horfinn heim.

Einnig er í myndinni sagt frá starfsemi Vélsmiðju Seyðisfjarðar og Skipasmíðastöðvar Austfjarða, en þau fyrirtæki ásamt Símstöðinni tengjast mjög starfsviði og umfjöllunarefnum Tækniminjasafnsins.