Eftir Ágústu Kristófersdóttur, framkvæmdastjóra safneigna, Þjóðminjasafni Íslands.


Það hefur varla farið fram hjá nokkrum safnmanni á Íslandi að aurskriður féllu á Seyðisjörð í desember 2020. Skriðurnar hrifu með sér heimili og vinnustaði Seyðfirðinga og lögðu Tækniminjasafn Austurlands að hluta í rúst og gerðu það sem uppi stóð ónýtanlegt fyrir hefðbundið safnastarf. Svæðið hafði verið skilgreint að hluta sem hættusvæði en ljóst er í dag að á þessu svæði verður hvorki hægt að búa lengur né geyma safnmuni.

Það var strax ljóst að hamfarirnar á Seyðisfirði voru meiri en það sem við höfðum áður tekist á við í íslenskum safnaheimi. Geymslubrunar í Þjóðminjasafni og Listasafni Reykjavíkur, jarðskjálftar á Suðurlandi og fleiri atburðir ollu vissulega miklu tjóni en umfang þeirra er minna en það sem við er að etja í Tækniminjasafninu.

Hvernig er hægt að takast á við verkefni af þessu tagi? Hvað á að gera? Hvar á að byrja og hver á að vinna verkefnin? Hægt er að byrja á því að vera þakklátur fyrir að ekki varð manntjón í skriðunni. Þeir sem hafa séð myndir af svæðinu og heyrt frásagnir vita að ekki mátti miklu muna. Mæla má með tímaás sem unninn var af nemum í Nýsköpunarsjóðsverkefni sumarið 2021 – hann má finna á síðunni https://tekmus.hi.is/og veitir innsýn bæði í persónulegar frásagnir af skriðuföllunum og áhrifum þeirra og af framvindu þeirra verkefna sem fóru af stað í kjölfarið.

Í björgunaraðgerðum á borð við þær sem fóru af stað á Seyðisfirði strax í kjölfar skriðufallanna er skipulag og forgangsröðun á hendi opinberra aðila, lögreglu og almannavarna. Reynt var að tryggja svæðið gegn frekari hamförum og bjarga verðmætum. Persónulegir munir fjölskyldnanna sem misst höfðu heimili sín voru á víð og dreif um svæðið, í bland við safngripi, muni tengda ýmsum fyrirtækjarekstri og húshluta. Lögð var áhersla á að bjarga persónulegum munum fyrst og koma þeim í þurrkun og flokkun. Fljótlega varð ljóst að í stað þess að skilja þá gripi sem augljóslega voru safngripir eftir var auðveldara að flokka þá strax frá og koma þeim í skjól. Björgunaraðilar fylltu tugi fiskikara af safnmunum sem fundust í skriðunni og komu þeim í geymslu í mjölskemmu Síldarvinnslunnar. Á meðan á þessu stóð biðu safnmenn um land allt næstu skrefa og áttu allt eins von á að vera kallaðir út í flokkun og viðgerðir. Skýr skilaboð komu þó frá þeim sem leiddu björgunarstarfið á staðnum að safnið ætti að bíða rólegt – röðin kæmi að því – en fyrst snerist björgunin um íbúana og eigur þeirra, ekki menningararf. Til að átta sig á þessari nálgun er mikilvægt að reyna að setja sig í spor heimamanna og muna að þó svo að menningarverðmæti skipti máli í hinu stóra samhengi þá eru einstaklingar og þeirra tilfinningar framar í forgangi við aðstæður eins og þær sem sköpuðust á Seyðisfirði. Fólk sem misst hefur allar veraldlegar eigur sínar eru ofar menningarminjum í stigveldi björgunaraðgerða.

Safnið

Tækniminjasafnið eru félagasamtök, það er enginn einn eigandi sem ber ábyrgð á því. Safnið er rekið á sjálfsaflafé auk þess sem það fær framlög frá sveitarfélaginu, ýmsum sjóðum á sviði menningar og byggðamála og safnið hefur jafnframt sótt um og fengið styrki úr safnasjóði. Fjárhagur þess er engu að síður veikur og rekstur hefur verið erfiður. Safnið er viðurkennt safn og fellur sem slíkt undir safnalög. Það er á ábyrgðarsviði Þjóðminjasafns Íslands sem höfuðsafns.

Á meðan beðið var eftir því að huga mætti af alvöru að þeirri stöðu sem Tækniminjasafnið, húsakostur þess og safneign var í, stillti fólk saman strengi. Safnaráð fundaði og samþykkti að veita 1.000.000 kr. í beina aðstoð til safnsins vegna hamfaranna. Þjóðminjasafn Íslands sendi strax eftir jól fulltrúa sinn á staðinn til að fá upplýsingar um ástandið frá fyrstu hendi og rætt var við ráðuneyti og stofnanir. Menntamálaráðherra leiddi síðan sinn hóp á staðinn í byrjun janúar og voru í þeirri ferð bæði þjóðminjavörður og forstöðumaður Minjastofnunar. Í kjölfarið fékk hvor stofnun sitt hlutverk, Minjastofnun varðandi byggðina og framtíð hennar og Þjóðminjasafnið varðandi safnið sjálft, safnkost þess og framtíð.

Verkefnið sjálft virtist óyfirstíganlegt, byggingar í rúst og safnkostur ýmist ónýtur eða honum staflað í fiskikör sem komið hafði verið fyrir í fiskvinnsluhúsnæði. Það sem ekki hafði orðið fyrir skriðunni var á hættusvæði, í húsnæði sem þurfti að rýma. Skrifstofa safnsins var rústir einar.

Tækniminjasafnið er og hefur lengst af verið svo kallað einmenningssafn, þar sem forstöðumaður er eini fastráðni starfsmaðurinn. Núverandi forstöðumaður, Zuhaitz Akizu, hefur starfað við safnið síðan 2019. Starfsemi og markmið safnsins hafa þó lengi verið metnaðarfull og stakkurinn sem safnið hefur sniðið sér kannski stærri en svo að það hafi vel ráðið við hann. Starfsemin sem sneri að gestum og samfélaginu á Seyðisfirði hafði verið í forgangi, og stefna í varðveislu og skráningu ekki náð að halda í við of öfluga söfnun safnsins. Safnkostur þess var því að miklu leyti óskráður og erfitt að öðlast yfirsýn yfir hann. Þetta kom áþreifanlega í ljós þegar farið var að flokka muni upp úr fiskikörum, sem og síðar þegar farið var að grisja úr geymslum. Þarna var um gríðarlegt magn að ræða af lítt eða óskráðum safnkosti.

Björgunaraðgerðir

Það eina sem hægt var að gera í stöðunni var að setja undir sig hausinn og halda af stað. Fljótlega var tekin sú ákvörðun að velja vel þá sem tóku þátt í verkefninu og reyna að stuðla að samfellu í því björgunarstarfi sem stóð fyrir dyrum. Hitann og þungann bar Tækniminjasafnið sjálft með sínum eina fasta starfsmanni, velviljuðum stjórnarmönnum og tímavinnufólki. Austurbrú, sjálfseignarstofnun sem vinnur að hagsmunamálum íbúa á Austurlandi og veitir þjónustu tengda atvinnulífi, menntun og menningu, lagði Tækniminjasafninu lið. Minjasafn Austurlands og safnastofnun Fjarðarbyggðar lögðu til aðstoð. Auk þess vann starfsfólk hins nýstofnaða sveitarfélags Múlaþings að verkefninu, en Múlaþing var stofnað við sameiningu sveitarfélaga á Austurlandi þann 1. nóvember 2020. Aurskriðurnar á Seyðisfirði voru sannkölluð eldskírn fyrir innviði þess.

Auk Austfirðinganna sem hér eru upptaldir voru kallaðir til „sérfræðingar að sunnan“. Eins og áður sagði fékk Þjóðminjasafnið það hlutverk að sinna samskiptum og aðstoð við Tækniminjasafnið hvað varðaði safnkost þess, auk þess sem starfsmaður á vegum Þjóðminjasafns hefur tekið þátt í stefnumótunarvinnu fyrir safnið. Björgun safnkostsins var skipt í tvo hluta. Fyrri hlutinn var unninn í fjórum ferðum sérfræðinga til Seyðisfjarðar þar sem gripir og skjöl voru flokkuð samkvæmt neyðargrisjunaráætlun sem sett var saman í samstarfi fjölmargra aðila. Í þeirri áætlun var byggt á vinnu sem starfshópur um framtíð Tækniminjasafns hafði unnið sumarið 2020 og áhersla lögð á að endurskilgreina kjarna safnkosts safnsins í gegnum grisjun og leggja höfuðáherslu á seyðfirskar atvinnuminjar. Næsta skref var að setja saman grisjunaráætlun sem lögð var fyrir safnaráð til staðfestingar. Þegar geymsluhúsnæði safnsins á hættusvæðinu var rýmt í mars 2021 var unnið í samræmi við þá áætlun. Reynt var að koma þeim gripum sem taldir voru hafa nokkuð varðveislugildi en áttu ekki erindi í safnkost Tækniminjasafnsins til annarra safna, sumt fór til annarra safna og einkaaðila en öðru var fargað. Það verður ekki annað sagt en að þessi aðgerð hafi verið nokkuð flókin og sársaukafull. Það var hins vegar metið sem svo að hluti þeirra gripa sem safnið hafði tekið til varðveislu væri ekki þess eðlis að rétt væri að safnið varðveitti hann áfram. Þetta var fyrst og fremst erlendur, fjöldaframleiddur tæknibúnaður frá síðari hluta 20. aldar.

Í svona vinnu kvikna margar spurningar: Hvað á lítið safn í fámennu byggðarlagi norður við heimskautsbaug að varðveita? Heila teppaverksmiðju? Sjö eintök af sama símtækinu frá sænskum tæknirisa? Eða á það að beina sjónum sínum að nærsamfélaginu og því sem einkennir það? Hægt væri að velta hverjum og einum grip fyrir sér tímunum saman – en stundum þarf að vinna hratt og taka ákvarðanir. Það var gert í þessu verkefni, hvernig tókst til á eftir að koma í ljós. Án efa voru gerð mörg mistök en vonandi líka teknar margar réttar ákvarðanir sem leiða til góðs, bæði fyrir safnið og fyrir samfélagið.

Þegar í fyrstu vinnuferð sunnanfólks austur kom í ljós að mikið af skjölum var meðal gripanna, bæði skjöl safnsins sjálfs, skjöl frá fyrirtækjum og skjöl sem réttara hefði verið að skila til Héraðsskjalasafns Austurlands og Þjóðskjalasafns. Þær stofnanir veittu ráðgjöf um björgun og ráðstöfun skjala og sendu sérfræðinga sína á staðinn.

Borgarsögusafn sendi þrjá starfsmenn sína í verkefnið að beiðni Þjóðminjasafnsins og 7 starfsmenn Þjóðminjasafns fóru á vettvang, auk þess sem starfsmenn unnu að verkefninu á heimavelli. Safnaráð fylgdist með framvindu verkefnisins og Ingibjörg Áskelsdóttir, forvörður í Borgarsögusafni sem á setu í eftirlitsnefnd safnaráðs, fór í þrjár ferðir til Seyðisfjarðar. Margir fleiri buðu fram aðstoð sína en eftir fyrstu ferðina austur var ákveðið í samráði við heimamenn að hafa þann hóp sem mætti á staðinn fámennan. Það var talið mikilvægt að þeir sem tóku þátt í vinnunni þekktu verkefnið og gætu unnið sjálfstætt og endurteknar ferðir sömu einstaklinga buðu upp á það. Þessar stofnanir búa aukinheldur yfir fjölmennu starfsliði og því myndaðist ekki skarð í starfsemi þeirra þegar lykilstarfsmenn fóru til vinnu á Seyðisfirði.

Verkefni sem lutu að daglegum rekstri, skipulagningu, framtíðarsýn og fjölmörgum öðrum þáttum voru alfarið á hendi forstöðumanns Tækniminjasafns og annarra heimamanna. Hlutur Þjóðminjasafns var ágætlega afmarkaður hvað varðaði umfang og tíma og í dag er litið svo á að fyrsta og öðrum þætti í björgun safnkosts sé lokið. Lilja Árnadóttir, fyrrum sviðsstjóri í Þjóðminjasafni, vinnur með stjórn og starfsmönnum Tækniminjasafns að mótun framtíðarstefnu. Lilja er fulltrúi Þjóðminjasafnsins í því verkefni.

Seyðisfjörður var, og er enn, samfélag í sárum og nauðsynlegt að fara varlega í þeirri vinnu sem var fram undan. Lögð var rík áhersla á það við þá sem tóku þátt í vinnunni á Seyðisfirði að deila efni ekki á samfélagsmiðla, heldur væri það hlutverk Tækniminjasafnsins sjálfs að sinna því og öðrum almannatengslum. Það var talið mikilvægt að safnið fengi að stýra umfjölluninni og því myndefni sem birt var án þess að þeir einstaklingar sem lögðu safninu lið kæmu þar að með sína útgáfu á samfélagsmiðlum. Fjallað var um þessar björgunaraðgerðir í bæði prent- og ljósvakamiðlum í fullu samráði við Tækniminjasafn.

Hvað svo?

Verkefninu er langt í frá lokið, rétt hefur verið komist fyrir vind með fyrstu þætti þess sem bjargað varð af safnkostinum og grisja þannig að hann yrði af viðráðanleg stærð miðað við umfang Tækniminjasafnsins. Næstu skref verða að finna safninu nýjan samastað, bæði til lengri og skemmri tíma, skilgreina hlutverk þess, ákveða rekstrarform og tryggja rekstur. Sú vinna er hafin en er langt í frá lokið. Þá tekur við umönnun safnkostsins, skráning og miðlun. Ný skrifstofa hefur verið sett upp, tölvur og kaffivél komnar á sinn stað, og stærstum hluta þess safnkosts sem ekki varð fyrir skriðunni komið fyrir í bráðabirgðageymsluhúsnæði. Starfsmönnum hefur verið fjölgað til að halda áfram með þau stóru verkefni sem fram undan eru.

Getum við á þessari stundu dregið einhvern lærdóm af atburðunum á Seyðisfirði? Við höfum kynnst vinnulagi almannavarna og björgunarsveita betur og vitum að fólk og persónulegar eigur þess eru ávallt í fyrsta forgangi. Við hefðum getað átt opnara samtal við fleiri stofnanir og aðila fyrr, til dæmis á vettvangi Bláa skjaldarins, alþjóðasamtaka um verndun menningararfs í hættu. Þó Blái skjöldurinn hafi tekið þátt í samtalinu á allra fyrstu dögunum eftir skriðuföllin þá virðist stjórnsýslan virka þannig að ríkið virkjar sínar stofnanir áður en hún virkjar sjálfboðaliða. Það samtal færðist því hratt yfir til mennta- og menningarmálaráðuneytis, safnaráðs og Þjóðminjasafns sem síðan var falið að leiða verkefnið og halda meðal annars utan um það fjármagn sem veitt var til björgunar safnkosts. Við hefðum jafnframt getað átt opnara samtal við heimamenn um ráðstöfun safnkostsins, en það þurfti að vinna hratt að verkefninu og upplifun okkar sem að þessari vinnu stóðum var sú að það væri hætta á töfum ef fleiri kæmu að borðinu. Þetta má án efa gagnrýna og nú þegar hafa nemendur, bæði í opinberri stjórnsýslu og safnafræði, fengið vinnugögn úr þessu ferli til greiningar. Þegar greining þeirra liggur fyrir verður hjálplegt fyrir okkur sem tókum þátt í verkefninu að eiga við þá samtal og spyrja okkur sjálf spurninga varðandi verklagið. Stóri lærdómurinn að mínu mati er hins vegar máttur samvinnunnar. Öll þau sem voru beðin um að leggja hönd á plóg brugðust vel við, unnu sín verkefni samviskusamlega og fóru eftir þeim leiðbeiningum sem þeim voru gefnar. Við sjáum vel á þessu að við erum sterkari saman.