Hvaða störf unnu konur á Seyðisfirði á árunum 1880-1920?

Árin 1880-1920 voru mikill umbrotatími á Íslandi. Aldalöng þjóðfélagsskipan, þar sem meginþorri þjóðarinnar bjó í sveitum landsins, tók að riðlast og fólk fluttist í nýmyndað þéttbýli við sjávarsíðuna. Formleg réttindi kvenna jukust og þær fengu réttindi á við karla; til náms, embætta, kosninga og kjörgengis og yfirráða yfir eigin fjármunum.

Þrátt fyrir að möguleikar kvenna hafi aukist með þéttbýlismyndun voru þeir takmarkaðri en karla. Konur unnu helst sem húsmæður, launakonur, atvinnurekendur eða opinberir starfsmenn. Árið 1910 vann helmingur vinnandi kvenna við húshjálp, fjórðungur í landbúnaði og fimmtungur við iðnað, aðallega fiskvinnslu. Þessar tölur segja þó ekki allt, atvinnuþátttaka giftra kvenna var ekki alltaf skráð. Sumar konur hættu að vinna þegar þær giftust á meðan aðrar unnu hlutastörf utan heimilis, t.a.m. við fiskvinnslu, eða ráku og unnu við fjölskyldufyrirtæki sem oft voru skráð á eiginmanninn.

Kvennastörf voru allajafna láglaunastörf og launamunur kynjanna var viðvarandi.

Um sýningarnar.

Sumarið 2024 opnuðu Minjasafn Austurlands, Héraðsskjalasafn Austfirðinga og Tækniminjasafn Austurlands þrjár sýningar sem saman bera yfirskriftina KONUR. Þær draga hver á sinn hátt fram hlutdeild og mikilvægi kvenna í sögu Austurlands.

Tækniminjasafnið dregur upp mynd af störfum kvenna á Seyðisfirði um aldamótin 1900 með áherslu á reynsluheim þeirra og framlag til atvinnulífsins.

Sýningarstjóri: Elfa Hlín Sigrúnar Pétursdóttir

Grafískur hönnuður: Ingvi Örn Þorsteinsson

Ljósmyndir: Héraðsskjalasafn Austfirðinga og Þjóðminjasafn Íslands

Minjasafnið nýtir fornleifarannsóknir til að draga upp mynd af hlutskipti kvenna á fyrstu öldum byggðar í Seyðisfirði. Sýningin er unnin í nánu samstarfi við Antikva, Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Austurlandi og Þjóðminjasafn Íslands. 

Sýningarstjóri: Rúna K. Tetzschner

Sýningarhönnuður: Hanna Christel Sigurkarlsdóttir

Sýningarnefnd:  Elsa Guðný Björgvinsdóttir, Ragnheiður Traustadóttir og Rannveig Þórhallsdóttur. 

Grafískur hönnuður: Ingvi Örn Þorsteinsson

Héraðsskjalasafnið segir sögu Margrétar Sigfúsdóttur, 20. aldar verkakonu, kennara og skálds í Fljótsdal. 

Sýningarstjóri: Stefán Bogi Sveinsson

Sýningarhönnuður: Hanna Christel Sigurkarlsdóttir

Grafískur hönnuður: Ingvi Örn Þorsteinsson

Upplestur: Arndís Þorvaldsdóttir, Elsa Guðný Björgvinsdóttir og Hekla Pálmadóttir.

Sýningunum er ætlað að sýna arfleifð austfirskra kvenna verðskuldaða virðingu og varpa ljósi á sögu þeirra frá ólíkum sjónarhornum.