Frá skriðuföllum hefur átt sér stað yfirgripsmikið og markvisst grisjunarstarf á safnkosti Tækniminjasafnsins. Bæði á óskráðum gripum sem ekki falla að nýrri söfnunarstefnu þess sem og munum sem eyðilögðust í skriðunni. Það er ekki algengt að söfn ráðist í svo viðamikla grisjun og því var í vor sótt um styrk til Nýsköpunarsjóðs námsmanna, í samstarfi við námsbraut í safnafræði við Háskóla Íslands og Þjóðminjasafn Íslands, um verkefni þar sem skoðað yrði og mótað verklag til að grisjuðum gripum væri einfaldlega ekki fargað heldur gæti nýst áfram, á mismunandi hátt. Markmiðið væri að búa til nýja þekkingu á sviði uppvinnslu við grisjun menningarminja og hagnýtingu hennar.
Það er ánægjulegt að segja frá því að Nýsköpunarsjóður námsmanna styrkti verkefnið Grisjun safnkosts og hringrásarhagkerfið. Safnafræðinemarnir Francesca Stoppani og Kathryn Ann Teeter munu í sumar vinna að því að búa til gagnsætt og hagnýtt ferli við mat á grisjuðum safnmunum, greina hugmyndir og ferli hringrásarhagkerfisins út frá safnastarfi og umsýslu safnkosts, með áherslu á að finna grisjuðum munum nýjan tilgang og að lokum, að útbúa skapalón fyrir söfn og menningarstofnanir sem tengir grisjun þeirra við hugmyndafræði og hagnýtar útfærslur hringrásarhagkerfisins.
Það verður spennandi að sjá afrakstur vinnu þeirra Fran og Katie, sem vonandi mun ekki eingöngu nýtast Tækniminjasafninu, heldur öðrum aðilum í svipuðum sporum.