Meðal menningarbygginga sem Tækniminjasafnið varðveitti og hafði umsjón með er Vjelasmiðja Jóhanns Hanssonar sem síðar varð Vélsmiðja Seyðisfjarðar. Vjelasmiðjan var stofnuð 1907 og varð brátt öflugt fyrirtæki á landsvísu og leiðandi í vélvæðingu fiskiskipaflota Íslands. Árið 1918 var hún stækkuð til muna og bættist þá við málmbræðsla þar sem framleidd voru m.a línuspil og alls kyns varahlutir í bátavélar. Vélsmiðja Seyðisfjarðar hóf stálskipasmíði árið 1967, en starfsemi fyrirtækisins lagðist af 1993.
Elsti hluti hússins gjöreyðilagðist í skriðunni 18. desember 2020 og ómetanleg menningarverðmæti sem þar voru inni. Má þar telja upprunalegt og starfshæft reimadrif sem tengt var verkfærum og tækjum. Þá tapaðist einnig túrbína sem Jóhann Hansson notaðist við þegar hann virkjaði Búðarána árið 1909 til að drífa vélbúnað smiðjunnar.
Yngri hluti vélsmiðjunnar stendur enn og hýsir sýningu um skriðuföll og atvinnusögu Búðareyrinnar.