Tækniminjasafn Austurlands bauð bæjarbúum á Seyðisfirði í gönguferð á Dögum Myrkurs, safnið hefur staðið fyrir viðburð af þessu tagi margoft áður í gegnum tíðina. Gengið var  í gegnum myrkvaðan Seyðisfjörð og aftur til fortíðar! Vélsmiðja Jóhanns Hanssonar var lýst upp að innan á drungalegan máta, slökkt var á ljósastaurum bæjarins og göturnar lýstar upp með luktum, kyndlum, höfuðljósum og vasaljósum.
Kór Lunga-skólans söng fyrir gesti göngunnar frumsamin lög og endaði halarófan á Hótel Öldunni þar sem boðið var upp á heitt kakó og kleinur.
Viðburðurinn var vel sóttur og stefnir Tækniminjasafnið á að viðhalda þessari hefð. Göngum saman í myrkrinu og minnumst þess þegar bærinn hafði enga götulýsingu.