Þann 30. ágúst 2023 verður í Vélsmiðjunni formleg opnun á sýningunni “Búðareyri, saga umbreytinga”. Ráðherra menningar og viðskipta, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mun flytja ávarp og sveitarstjóri Múlaþings, Björn Ingimarsson, mun formlega afhenda safninu bryggjuhúsið Angró sem safnið mun reisa á nýjum stað á Lónsleiru á næstu misserum. Arkitektarnir Ásta Birna Árnadóttir og Hildur Gunnlaugsdóttir kynna gestum stöðuna á hönnun á húsinu og nýju safnasvæði og í boði verða léttar veitingar og ljúfir harmonikkutónar.

Sýningin hefur þó verið opin gestum frá 17. júní sl. og hafa um eitt þúsund manns heimsótt hana þetta sumarið þó að hún hafi lítið verið auglýst eða kynnt. Markaðssetning hennar, skipulag og gerð kynningarefnis er verkefni sem býður starfsfólks nú á haustmánuðum en það er von okkar að hún verði fjölsóttur viðkomustaður gesta á Seyðisfirði næstu árin.