Námsbrautin Land hjá LungA – skólanum hélt á dögunum lokasýningu í Vjelsmiðju Jóhanns Hanssonar þar sem nemendur buðu bæjarbúum á sýningu, þar sem áhugasamir gátu séð og fræðst um afrakstur námsbrautarinnar.
Í janúar 2023 fór fram svokallað Beta – prógram á þessari námsbraut þar sem 14 áhugasömum einstaklingum var boðið á Seyðisfjörð á vit ævintýranna, tilgangurinn með smíðum á þessari nýju námsbraut er margþættur. Forstöðumenn Land eru Þrándur Gíslason Roth, Hilmar Guðjónsson, Signý Jónsdóttir og Nanna Vibe Spejlborg Juelsbo, var hluti af þróun námsbrautarinnar. Þau leggja áherslu á þá tengingu við landið sem við lifum á og af. Hvernig er hægt að sinna landinu betur og þekkja? Hvernig ferðumst við um það, hvernig lesum við það, hvernig skilum við því sem áður hefur verið tekið til baka? Er aftenging á milli uppsprettu auðlindanna sem landið gefur okkur og hefur það haft í för með sér að virðing hningar?
Nemendurnir óðu meðal annars hnéháan snjóinn út á Skálanes, eldaður var matur úr nærumhverfinu þar og fræðst um staðhætti. Páll Kristjánsson hnífasmiður leiddi námskeið í hnífasmíði, fræðst var um jarðfræðisögu Seyðisfjarðar og Íslands, sem og fornleifar á svæðinu. Gist var í snjóhúsum, ferðast á gönguskíðum, sáð melgresisfræjum, lært á snjóinn og snjólögin, týnt krækling og farið á sjó með bæjarbúum og lært var hvernig nýta mætti fiskinn.
Nemendahópurinn samanstóð af mörgum þjóðernum m.a. Kanada, Bandaríkjunum, Bretlandi, Rússlandi, Skandinavíu, Sviss, Frakklandi og Íslandi og var bakgrunnur þeirra eins fjölbreyttur og löndin sem þau komu frá. Hópurinn samanstóð af arktektum, landslagsarkítektum, bændum, fjallafólki, ljósmyndurum, kvikmyndagerðarfólki, myndlistarfólki og tónlistarmönnum.
Tækniminjasafnið óskar LungA-skólanum til hamingju með þessa nýju námsbraut og hlökkum til áframhaldandi samstarfs.