Mynd : Jessica Auer

„BÚÐAREYRIN – SAGA UMBREYTINGA“ OPNUÐ 17. JÚNÍ

Þann 17. júní síðastliðinn var samfélagsopnun á nýrri sýningu Tækniminjasafnsins Búðareyri – Saga umbreytinga í Vélsmiðjunni sem hefur gengið í gegnum miklar umbætur. Var það einstaklega gleðilegur viðburður sem rúmlega 200 manns sóttu í einstöku blíðskaparveðri. Þó að starfsmenn safnsins hafi langt í frá setið auðum höndum síðan stóra skriðan eyðilagði hús þess og safnkost þann 20. desember 2020 þá markar þessi sýningaropnun mikil tímamót í safnastarfinu, við erum aftur farin að taka á móti gestum, tveimur og hálfu ári eftir skriðuföllin.

Sýningin fjallar um hina fjölbreyttu og margbreytilegu sögu mannlífs og atvinnustarfsemi á þeirri litlu landræmu sem Búðareyrin á Seyðisfirði vissulega er. Umbreytingar einkenna þessa sögu sem er sýnd út frá nokkrum mismunandi þemum; höfninni, upphafi byggðarinnar, verslun og viðskiptum, Vélsmiðjunni, samskiptum og ritsímanum, hernámsárunum og að lokum náttúrufari og skriðuföllum.

Á sýningunni eru engir eiginlegir safngripir til sýnis þar sem Vélsmiðjan stendur á óverjandi hættusvæði. Í stað þess er notast við nýstárlegar miðlunarleiðir og leikmuni.

Ætlunin er að sýningin standi þar til að nýtt safnahúsnæði verður tekið í notkun á úthlutaðri lóð safnsins á Lónsleirunni, vonandi innan fárra ára.

Tækniminjasafn Austurlands vill þakka þá velvild sem safninu hefur verið sýnd af hálfu samfélagsins,
sveitarfélagsins sem og hinu opinbera auk fjölda annarra, svo sem samfélagi safna og safnamanna, félagasamtaka og þeirra sem styrktu í söfnun safnsins meðal annars á Karolina fund. Sýningin hefði ekki litið dagsins ljós nema fyrir Uppbyggingasjóð Austurlands, Hvatasjóð Seyðisfjarðar, Múlaþing, Safnasjóð og Menningar- og viðskiptaráðuneytið. Þess má einnig geta að Húsafriðunarsjóður hefur styrkt endurbætur á húsinu.

Við erum ykkur öllum þakklát.

Vélsmiðjan er opin mánudaga til laugardaga kl. 10-17 og frá október samkvæmt samkomulagi.