Í dag lítum við bjartsýn fram á við, um leið og við gerum okkur fyllilega grein fyrir því að mikið verk er óunnið. Í byrjun júní 2021 stóðum við fyrir tveggja daga vinnustofu um framtíðarsýn og stefnu safnsins. Á henni sátu aðilar tengdir safninu, öðrum menningarstofnunum á Seyðisfirði, frá sveitarfélaginu, stjórn safnsins og öðrum söfnum.
Það sem einkenndi vinnustofuna var trú þátttakenda hennar á framtíð safnsins og möguleikum þess til að vaxa og dafna samfélaginu og ferðaþjónustu til hagsældar. Það er mat okkar sem stöndum safninu næst að megináherslur í endurreisn safnsins verði lifandi safn þar sem óáþreifanlegur menningararfur, verkþekking og vinnubrögð verði í hávegum höfð.
Þrátt fyrir þennan stóra skell sem safnið varð fyrir í lok ársins 2020 þá trúum við því að hann boði líka bjartari tíma fyrir safnið. Áskoranirnar eru stórar en tækifærin ekki síður. Við sjáum fyrir okkur að byggja upp lifandi safn með fjölbreyttum verkstæðum og vinnustofum, sem verður ómissandi viðkomustaður fyrir gesti Seyðisfjarðar í framtíðinni en um leið í nánu sambandi og samtali við heimamenn.